144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

innanlandsflug.

[11:24]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu sem er mjög mikilvæg og ég þakka líka vinnuhópnum fyrir sitt framlag og skýrsluna góðu sem ég vona að við getum nýtt okkur til þess að lækka innanlandsflugið. Mér fannst svolítið sérstakt í umræðunni um náttúrupassann að því var haldið fram að við yrðum að setja gjald á innanlandsflugið en á móti gætum við þá bara tekið eitthvert gjald af innanlandsfluginu. Það hjálpar í raun ekki mikið til ef við ætlum að lækka eitt gjald og setja á annað á móti. Þar af leiðandi fannst mér þetta ekki góð hugmynd.

Eins og hefur komið fram í umræðunum er í raun dýrara fyrir íbúa á til dæmis Egilsstöðum að koma til Reykjavíkur og komast heim til sín aftur en fyrir Reykvíkinga að skreppa til London. Nú er það þannig að við þurfum að sækja ýmsa þjónustu og vinnu jafnvel til höfuðborgarinnar og það hefur áhrif á búsetuskilyrði að þessar samgöngur séu góðar og séu ekki lúxus fyrir þá sem hafa efni á því. Ef maður skoðar samsetninguna á þeim sem nýta innanlandsflugið er hún líka mjög áhugaverð, þetta er mjög mikið fólk sem fer á milli vegna vinnu og hið opinbera borgar líka fargjöldin að miklum hluta.

Ég held að ég hafi persónulega örsjaldan flogið á eigin vegum en yfirleitt kem ég til Reykjavíkur vegna vinnu.

Mér finnst líka annað í þessu sem er það að dreifa ferðamönnum um landið, þá held ég að það skipti mjög miklu máli að innanlandsflugið sé raunhæfur kostur og ekki allt of dýrt og þar er mikilvægt að það sé að minnsta kosti möguleiki á yfirvofandi samkeppni. Ég efast um að það sé nema á örfáum leiðum einhver möguleiki á samkeppni, það hafa tvö flugfélög verið að fljúga til Akureyrar. Kannski er bara raunhæft að það sé eitt en það er samt mikilvægt að stjórnvöld búi þannig um hnútana að nýtt fyrirtæki sem sér þar eitthvert tækifæri geti stokkið inn. Ég held að hún geti verið jafn mikilvæg, þessi yfirvofandi samkeppni, og bara raunveruleg samkeppni, ef þið skiljið hvað ég á við. Annars bara þakka ég fyrir þessa góðu umræðu hér.