144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

innanlandsflug.

[11:31]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það væri ljótt ef við þyrftum að ganga í Evrópusambandið til að geta lækkað flugfargjöld innan lands en ég vona að svo verði ekki heldur að við getum gert þetta á eigin forsendum. Ég tel að flugið sé okkar almenningssamgöngur innan lands og við marga landshluta er það það. Í dag er það verðið sem fælir frá, það er allt of hátt, það hefur komið fram að það að fara þessa lengstu leggi frá höfuðborgarsvæðinu kostar fram og til baka hátt í 50 þús. kr. Það sér hver heilvita maður að venjuleg fjölskylda ræður illa við að nýta sér þetta eins og hún hefði kosið. Almenningur í landinu sem býr fjarri höfuðborgarsvæðinu þarf að sækja hingað á höfuðborgarsvæðið ýmsa þjónustu, menningu, heilbrigðisþjónustu, menntun og margt mætti telja upp, að ég tali ekki um öryggisþáttinn varðandi sjúkraflugið á Landspítalann, hátæknisjúkrahús allra landsmanna.

Það er mjög brýnt og mér finnst gott að þessi starfshópur hafi verið stofnaður til að kanna möguleika á því hvernig hægt væri að lækka verð á flugmiðum á einhvern hátt, að ríkið komi þar inn í. Ég vonast til þess að menn vinni með þetta, það er talað um að þetta kosti einar 400 milljónir og ég ber vissulega ákveðinn ugg í brjósti vegna þess að í síðustu fjárlögum var skorið niður til innanlandsflugsins og ríkisstyrktu leiðanna. Við þurfum að verja þessa þætti, ríkisstyrktu leggirnir eru mjög mikilvægir. Á sumum stöðum á landinu eru þetta kannski yfir háveturinn einu samgöngurnar sem viðkomandi byggðarlag hefur við höfuðborgarsvæðið, af sínu svæði inn á þjóðbrautina. Það skiptir alla landsmenn miklu máli hvernig þetta þróast og ég tel gott að unnið sé að þessum málum (Forseti hringir.) en það má ekki dragast allt of lengi.