144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

innanlandsflug.

[11:33]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Valgerði Gunnarsdóttur, fyrir að taka upp mál innanlandsflugs.

Mig langar að byrja á að ræða um tengingu innanlandsflugs við stækkandi atvinnugrein, ferðaþjónustuna. Ég tel að þar megi sjá nýtt tækifæri með því að opna fleiri fluggáttir inn í landið, því að langstærsti hluti ferðamanna kemur með flugi gegnum Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Reykjanesi og því er mikill ágangur á ferðamannastaði á suður- og suðvesturhorni landsins. Ef fleiri gáttir verða opnaðar og markvisst markaðssettar er ég sannfærður um að dreifing ferðamanna yrði betri og þessi þjónustugrein mundi dreifast betur um landið. Einnig með því að efla flugvelli vítt og breitt um landið styrkir það kerfið í heild, eins og með varaflugvellina. Flugmönnum er skylt að skrá varaflugvöll við þann flugvöll sem fyrirhugað er að lenda á og komið hefur upp í Ameríkuflugi að flugmenn hafa þurft að skrá varaflugvöll á Írlandi eða í Svíþjóð.

Í seinni hluta ræðunnar langar mig að tala aðeins um Reykjavíkurflugvöll og ítreka mikilvægi hans í samfélaginu. Reykjavíkurflugvöllur er miðstöð innanlandsflugs og gegnir mikilvægu hlutverki í samgöngum höfuðborgarinnar og landsbyggðarinnar. Flugvöllurinn gegnir lykilhlutverki í tengingu landsbyggðarinnar við kjarnaþjónustu opinberrar þjónustu sem er að mestu á höfuðborgarsvæðinu, tengingu við heilbrigðiskerfið, Landspítalann, sem er spítali okkar allra og þarf að vera nálægt öflugum samgönguæðum, og til viðbótar get ég eins og fleiri þingmenn nefnt menntakerfið og almenna verslun og þjónustu.

Að því sögðu tel ég mikilvægt að fulltrúar allra landsmanna, ekki einungis þeir sem eru kosnir af einu sveitarfélagi, taki ákvörðun um framtíð flugvallarins. Það er mun (Forseti hringir.) lýðræðislegra og sanngjarnara.