144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

innanlandsflug.

[11:37]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka öllum þeim þingmönnum sem tekið hafa þátt í þessari umræðu. Það er sérstaklega ánægjulegt að heyra þann einhug sem ríkir um mikilvægi innanlandsflugsins og að menn deila þeim áhyggjum að flugið sé okkur dýrara en það ætti að vera og hamli því þar af leiðandi að menn geti nýtt það, almennir farþegar, eins og æskilegt væri.

Ég vil líka beina því til hæstv. innanríkisráðherra að það sem kemur fram í skýrslu þess starfshóps sem hér hefur verið nefndur verði tekið fyrir og menn leiti leiða til að hægt verði að lækka fargjöld þannig að flugið verði almennari samgöngumáti.

Það er alveg rétt að Íslendingar eru farnir að beina sjónum að því hvort lestarsamgöngur væru mögulegur ferðamáti hér. Auðvitað vitum við ekki hvað gerist í framtíðinni, en ég vil þakka hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir að koma með þessa tillögu.

Síðan vil ég hér í lokin nota tímann til þess að brýna menn í því að Reykjavíkurflugvöllur er lífæð allra landsmanna. Ef hróflað verður við honum erum við komin í mun erfiðari stöðu. Það mun verða okkur dýrt að byggja upp flugvöll annars staðar. Eins og hann er núna þá þjónar hann hlutverki sínu afskaplega vel og ég vona að svo verði áfram.