144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

nauðungarsala.

573. mál
[11:48]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Árið 2010 veitti þingmaðurinn Ólöf Nordal andsvar við ræðu þess ráðherra sem flutti frumvarp um frestun á nauðungarsölu. Þingmaðurinn Ólöf Nordal vakti athygli á því að hér væri aðeins verið að fresta vandanum, að hann gæti aukist meðan á frestinum stæði, og sagði við ráðherrann að hinn mikli fjöldi af nauðungarsölubeiðnum sýndi að úrræði stjórnvalda væru ekki fullnægjandi. Þingmaðurinn kallaði eftir því við ráðherrann að hann gripi til róttækra aðgerða til að bjarga þeim fjölmörgu heimilum sem væru stödd í þessari neyð.

Þegar þingmaðurinn er orðinn ráðherrann sem flytur mál sömu ættar er þess vegna eðlilegt að spyrja ráðherrann: Hvar er lyklafrumvarpið sem þessi þingmaður vísaði einmitt til í þessum umræðum á Alþingi 2010? Hvar er lyklafrumvarpið sem landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykkti að festa skyldi í lög? Hvar er lyklafrumvarpið sem Sjálfstæðisflokkurinn lofaði kjósendum sínum í aðdraganda síðustu alþingiskosninga? Það fólk sem hér er undir verður ekki margt laust úr vanda sínum eftir takmarkaða fjárhæð úr leiðréttingarprógrammi Framsóknarflokksins. Langflest af þessu fólki glímir við miklu stærri vanda en svo. Það mun þess vegna þurfa að horfast í augu við nauðungarsölu, hvort sem það verður í næsta mánuði eða síðar á árinu, nema ráðherrann grípi til róttækra aðgerða til að bjarga þessum heimilum.

Þess vegna ítreka ég spurningu mína til ráðherrans: Hvenær kemur hún með lyklafrumvarpið sem flokkur hennar lofaði?