144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

nauðungarsala.

573. mál
[11:52]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta frumvarp er góðra gjalda vert og við í stjórnarandstöðunni höfum lofað að greiða því leið í gegnum þingið. Það er að vísu sérkennilegt að þurfa að gera það í tvígang á sama vetri, að ráðherrann hafi ekki meiri fyrirhyggju en svo að þurfa að koma inn með það með afbrigðum. Það er líka góðra gjalda vert að tala fyrir því að efla hér atvinnusköpun og bæta efnahaginn til lengri tíma, en það mun ekki bjarga þúsundum heimila sem eru með ofskuldsett heimili sín.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykkti að lögfesta skyldi lyklafrumvarp og allir frambjóðendur flokksins lofuðu því fyrir síðustu alþingiskosningar að lögfest yrði lyklafrumvarp sem bjargaði þeim þúsundum heimila sem eiga heimili sín í hættu vegna nauðungarsölu. Ég spyr ráðherrann aftur því að ráðherrann svaraði ekki áðan: Hvenær ætlar innanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins, en flokkurinn hefur nú í nærri tvö ár átt innanríkisráðuneytið, að koma í þingið með lyklafrumvarpið og skera þessi heimili niður úr snörunni eins og hann lofaði þeim? (Forseti hringir.) Það er ábyrgðarhluti að lofa nauðstöddum heimilum bjargræði og við það eiga menn að standa.