144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

nauðungarsala.

573. mál
[11:53]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get í sjálfu sér fallist á að það hefði verið betra ef maður hefði haft skýrari mynd fyrir jólin, þegar við frestuðum uppboðum til 1. mars, af því hversu langan tíma það tæki en af því að um þetta úrræði er að ræða tel ég ekki borga sig að frestunin sé um of langa framtíð. Ég vonaðist til þess að við yrðum búin að fá betri botn í þessa hluti fyrir 1. mars en raun hefur orðið á og ég bind að sjálfsögðu vonir við að þessi tími dugi.

Þær breytingar sem unnið hefur verið að í innanríkisráðuneytinu hafa snúið að þeirri stefnumörkun þessarar ríkisstjórnar að fara í leiðréttinguna. Þannig höfum við unnið í innanríkisráðuneytinu.

Það getur vel verið, og ég get svo sem ítrekað það sem ég sagði hér á fyrri stigum, að við þurfum til lengri tíma að skoða hvernig best er komið fyrir bæði framkvæmd og skilyrðum vegna nauðungarsölu gjaldþrota. Það kann vel að vera og ég hef á því skýrar skoðanir en það er ekki sérstök vinna við það akkúrat núna (Forseti hringir.) í innanríkisráðuneytinu.