144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

nauðungarsala.

573. mál
[11:57]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við í innanríkisráðuneytinu höfum nýtt tímann til að gera okkur grein fyrir því hvaða tímarammi er hugsanlegur í þessu. Það er ekkert launungarmál og hefur margoft komið fram að þetta hefur tekið mun lengri tíma hjá ríkisskattstjóra en menn áttu von á. Það kom reyndar ekki öllum á óvart því að þarna undir eru flókin mál en það veldur tilteknum áhyggjum að þetta séu þó 5 þús. mál, það er töluvert mikill fjöldi. Við vitum hins vegar ekkert hversu mörg þeirra eru í uppboðsfarvegi, það er allt önnur umræða, það er alls ekki hægt að draga þá ályktun að það sé endilega stór hluti. Við vitum það ekki en við vitum hins vegar að 350 mál bíða uppboðs.

Þessi þrenging var líka í því frumvarpi sem ég mælti fyrir fyrir áramótin og það er að hluta til af því að við erum að reyna að koma okkur út úr þessu ástandi yfir í varanlegt ástand. Við höfum verið að fresta frá 2009 og ég greiddi því sjálf alltaf götu í þinginu eins og við gerum í þessum vanda sem við glímt við hér. Það er farið að verða brýnt að við sjáum fram á framtíðarskipan og ljúkum þessum kafla.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega hvers vegna þetta er ekki almennt. Það er þó þannig að það er alltaf hægt að fresta ef samþykki kröfuhafa fæst fyrir frestuninni, en þetta er liður í því að komast út úr þessu, ljúka þessum kafla og komast aftur á okkar almennu braut. Það getur ekki verið gott til lengri tíma að vera með slík inngrip í rétt kröfuhafa.