144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

nauðungarsala.

573. mál
[12:00]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að ég hef aldrei nokkurn tímann tekið mér það í munn að það sé eins og pítsupöntun að greiða úr skuldavanda manna. Ég held meira að segja að þegar við vorum að deila um það á síðasta kjörtímabili hvaða leiðir skyldu farnar hafi alltaf legið fyrir mjög skýrt af minni hálfu, og hægt að lesa um það í þingskjölum, að við vildum styðja góð mál til að hjálpa heimilunum. Það gerðum við svo sannarlega, en við höfum alltaf verið að deila um leiðir. Það er kannski þess vegna sem við erum hvert í sínum flokknum, við getum ekki alltaf verið sammála um leiðirnar. En ég gengst ekki við að ég hafi talað eins og það væri einhver hókus-pókus-leið í þessu, ég hef aldrei verið þeirrar skoðunar.

Svar við spurningunni sem hv. þingmaður beinir til mín er: Já, við teljum málefnaleg rök þarna að baki, annars hefðum við ekki lagt þessa tillögu fram. Ég ítreka það sem mína alveg eindregnu skoðun að það er mikilvægt fyrir okkur að komast út úr þessum uppboðsfarsa. Ég vona svo sannarlega að þetta dugi núna til en að því gefnu má koma fram að ég hef auðvitað ekki séð þau mál sem ríkisskattstjóri er að (Forseti hringir.) glíma við. Ég veit ekki alveg hvers konar mál þetta eru, en það segir sig sjálft að þau (Forseti hringir.) hljóta að vera töluvert fjölbreytt fyrst svona stendur á.