144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

nauðungarsala.

573. mál
[12:05]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breyting á lögum um nauðungarsölu, með síðari breytingum, þ.e. frestun nauðungarsölu. Ég ætla aðeins að koma inn í umræðuna vegna þess að það er auðvitað mikið áhyggjuefni að við skulum þurfa að framlengja þetta ítrekað, ekki vegna þess í sjálfu sér að það sé ekki ástæða til að búa þannig um að menn geti losnað við að fara í nauðungarsölu, heldur lýsir þetta fyrst og fremst vandræðaganginum í því að koma málum áfram sem eru mjög brýn til að við komumst út úr þeim vanda sem við er að etja eftir hrunið og afleiðingarnar fyrir heimili landsins.

Það hefur komið fram í andsvörum og umræðu að allt var þetta afar einfalt þegar gengið var til kosninga fyrir ári, nú væri kominn sá tími að þetta mundi allt saman lagast og ýmsar ágætar hugmyndir hafa verið settar fram, sumt í frumvarpsformi en langflest af því hefur ekki komið á borðið enn þá. Komið hefur í ljós að vandræðagangurinn hefur einmitt verið þannig að margt af því sem við þyrftum að vera komin með svör við, til að fólkið í landinu geti vitað hvað bíður þess, er bara alls ekki tilbúið. Sú leiðrétting sem verið er að framkvæma og hefur dregist töluvert mikið frá því sem lagt var af stað með og ítrekaðar yfirlýsingar um að nú sé þetta allt að klárast og þetta taki engan tíma er alls ekki komin til framkvæmda. Þarna er fyrst og fremst verið að fresta ákvörðuninni varðandi nauðungarsölu til þess að reyna að fá allan þann hóp með.

Um þetta geri ég engan ágreining. Við vorum búin að ræða það í hv. allsherjar- og menntamálanefnd að við mundum flytja slíkt mál ef ráðherra kæmi ekki með það. Það er auðvitað sjálfsagður hlutur að reyna að búa þannig um hnútana að hér verði ekki fólk rekið út úr húsum sínum á meðan verið er að vinna að lausnum sem vonandi duga einhverjum.

Þetta vekur líka umræðu, eins og hér hefur komið fram í andsvari, um hluti sem áttu að vera ákveðnar lausnir og sátt virðist hafa náðst um í umræðunni á milli stjórnarflokkanna, eins og lyklafrumvarpið, þ.e. að hægt væri að losa sig út úr skuldum með því að yfirgefa húsið og hreinsa þannig af en fara jafnvel eignalaus út úr því. Það bólar ekkert á því frumvarpi. Það er ekki komið. Er það á leiðinni? Mun það koma? Mun það ekki koma? Á leiðréttingin bara að duga og þá fyrir þá sem komast í gegn og nær þá ekki til þeirra, sem því miður eru nokkrir, sem af ýmsum ástæðum sóttu ekki um, og annarra sem fengu ekki úthlutun vegna þess að þeir voru í ákveðnu búsetuformi o.s.frv.?

Gripið var til einnar aðgerðar sem var að reyna að hjálpa þeim sem höfðu ekki efni á því að fara í gjaldþrot. Það gat verið leið eftir að menn styttu endurreisnartímann, ef má orða það svo, niður í tvö ár þannig að menn gátu komist á lappirnar á tveimur árum. Þá gat gjaldþrotaleiðin verið úrræði fyrir suma, en einhverjir höfðu ekki efni á því og bankarnir héldu við kröfunum á viðkomandi einstaklinga með því að fara í árangurslaust fjárnám, setja fólk ekki í gjaldþrot, kosta það ekki og halda því þannig í snörunni að skuldirnar hanga á viðkomandi aðilum til eilífðarnóns. Þetta er auðvitað fullkomlega óþolandi. Þarna var sem sagt sett inn ákvæði um það að greiða mætti fyrir ákveðinn hóp sem vildi fara í gjaldþrot þann kostnað sem er við að lýsa sig gjaldþrota. Þetta fór í gegnum embætti umboðsmanns skuldara. En þarna eru ákvæði sem hafa sýnt sig að hafa verið svo hart skilgreind að það eru mjög fáir sem hafa farið þarna í gegn. Staðið hefur til að breyta þeim lögum en þau hafa því miður ekki komið inn í þingið. Það er því áframhaldandi óvissa um stöðu þessara aðila.

Þegar við vorum að ræða leiðréttinguna var megingagnrýnin á þá útfærslu og þá leið sem þar var valin að menn kölluðu hana almenna aðgerð en hún reynist náttúrlega engan veginn vera almenn, líka vegna þess að hún náði til allra þeirra sem voru með skuldir á ákveðnu árabili óháð því hvenær stofnað var til skuldanna, hver staðan var á þeim o.s.frv. Á sama tíma var skilinn eftir heill hópur sem er í miklum vandræðum. Þegar við gagnrýndum þetta vorum við að tala um leigjendur, við vorum að tala um þá sem eru í húsnæðissamvinnufélögum og þegar við töluðum um og gagnrýndum þetta héðan úr ræðustóli kom hæstv. forsætisráðherra og lýsti því yfir að að sjálfsögðu yrði unnið úr þeim málum. En það hefur ekkert verið gert. Við fáum engin boð um það að verið sé að vinna að slíkum lausnum.

Stórir hópar þurftu að taka á sig verðtryggða hækkun á leigu og eru í miklum vandræðum, hafa fengið allt upp í 50% hækkun á leigu, og ráða ekki við það, en engin úrræði eru fyrir viðkomandi aðila. Reiknað var með að taka upp húsnæðisbótakerfi. Það lá fyrir í tillögum frá fyrrverandi ríkisstjórn. Ákveðið hefur verið að gera það eftir að menn fóru að skoða allar gömlu tillögurnar og komust að niðurstöðu um að það væri skynsamlegasta leiðin. Síðan gerist ekki neitt. Við höfum ekkert frumvarp fengið um það hingað í þingið sem gæti leyst vanda margra.

Ég nefni Búmenn sérstaklega af því að það er ákveðið búsetuform, það er húsnæðissamvinnufélag sem er í rauninni gríðarlega gott form þar sem menn þurfa ekki að leggja út fyrir öllum stofnkostnaðinum, geta fengið örugga búsetu, búið þar til langs tíma undir ákveðnu félagsformi. Á því hafa reynst vera gallar og þeir aðilar fengu á sig allan forsendubrestinn ef hægt er að kalla það svo, þar sem margar af þeim íbúðum voru nýjar þegar hrunið varð, og hafa fengið á sig gríðarlegar hækkanir. Leigan á ákveðnum íbúðum og á ákveðnum svæðum hefur hækkað úr 120 þús. kr. upp í 180 þús. kr. Menn geta rétt séð fyrir sér ef um væri að ræða ekkju sem býr í íbúð upp á 90 fermetra, og á að fara að borga 180 þús. kr. og er kannski með mánaðartekjur upp á 200–250 þús. kr. Það gengur ekki upp. Þeim aðilum yrði væntanlega öllum hent út ef þeir gefast upp og fara út úr þessu búsetuformi því að þá fellur kostnaðurinn yfir á félagið af því að ekki er endilega markaður fyrir að kaupa á slíku verði á þeim svæðum sem ég er að tala um, sem getur verið Reykjanes, Akranes, Hveragerði o.s.frv. Slík mál eru því algjörlega óleyst. Við erum ekkert að leysa þau hér. Við erum að fresta hlutunum og eins og ég segi er það óhjákvæmilegt eins og staðan er í dag, en svarar ekki öllum þeim spurningum sem maður hefði viljað að væri búið að svara, líka sérstaklega miðað við þær yfirlýsingar sem gefnar voru hér um að þetta væri bara óvilji fyrrverandi ríkisstjórnar, að hún hefði bara engan áhuga á að leysa vandann. Nú væri komin ríkisstjórn sem ætlaði að gera þetta allt saman, en útkoman er ekki betri en þetta.

Við getum öll fagnað því að verðbólgan hefur verið mjög lág síðastliðna mánuði og verulegur árangur hefur náðst í því, þó að það sé auðvitað að einhverju leyti svikalogn, en það verður að gæta þess mjög að hún fari ekki af stað aftur vegna þess að öll þessi lán eru enn þá verðtryggð. Það hefur ekkert verið gert í að reyna að breyta því til framtíðar litið. Nú eru liðin næstum tvö ár hjá nýrri ríkisstjórn og þrátt fyrir loforð um að afnema verðtrygginguna er ekki búið að stíga neitt skref í því. Það er búið að tilkynna að afnema eigi réttinn til að taka verðtryggð lán, sem eru 40 ár eða umfram 25 ár. En meðan engin úrræði koma fyrir nýja kaupendur eru það bara viðbótarvandræði vegna þess að viðkomandi einstaklingar komast þá ekkert inn á húsnæðismarkaðinn, hvorki leigumarkaðinn né að kaupa sjálfir. Þetta er ástandið sem við búum við í augnablikinu og því miður svarar þetta frumvarp engu um þessi mál. Því hlýtur maður að kalla eftir lausnum á þeim þáttum, hvetja ríkisstjórnina til dáða, veita stuðning við góð mál sem þar koma fram til að bæta þessa stöðu og krefjast þess að ríkisstjórnin standi við að skoða þá hópa sem lentu í raunverulegum vandræðum sem liggja enn óbættir hjá garði.

Þegar við vorum að ræða um leiðréttinguna sögðum við: Fókuserum á hópinn sem fjárfesti á árinu 2005 fram til 2008. Það var hópurinn sem í rauninni keypti á hæstu verðum, fékk á sig verðbólguskotið og réð ekki við eitt né neitt. Ef við hefðum fókuserað á þann hóp hefðum við getað gert mun myndarlegra við hann og losað hann út úr þessu. Á sama tíma sem menn eru að gagnrýna, þ.e. að við skulum hafa þá skoðun, er verið að hjálpa fólki sem fjárfesti 10, 20 árum fyrir hrun, var búið að fá allar hækkanir á höfuðstól og hækkun á eignum og meira að segja núna eftir hrun hefur höfuðstólshækkun á höfuðborgarsvæðinu verið allt upp í 10%, 20% sem er næstum sama og verðbólgan á þeim tíma, og verðtryggingin mældi upp eignina, menn eru því byrjaðir að fá til baka höfuðstólinn sinn óháð öllum aðgerðum. En það hjálpar ekki endilega fólki vegna þess að við erum þó að tala um að greiðslubyrðin hafi aukist og menn borga hærri fasteignagjöld, þannig að auðvitað var það alltaf rangur fókus að horfa bara á höfuðstól. En ekkert af þessu er verið að leysa. Ekkert. Það er verið að fresta nauðungarsölu. Búið. Þetta er áhyggjuefnið.

Ég mun gera allt til að greiða fyrir framgangi þessa frumvarps, það verður væntanlega tekið fyrir í hv. allsherjar- og menntamálanefnd í fyrramálið og ég veit ekki til þess að nein fyrirstaða sé þar. Við munum styðja frumvarpið. Ég mun gera það þar og drífa það áfram til að ljúka því fyrir 1. mars, þó að það sé náttúrlega rétt ábending sem kom fram áðan að auðvitað gat frumvarpið komið fyrir hálfum mánuði, það lá fyrir að þetta væri yfirvofandi og það lá fyrir að engar lausnir eru, en við skulum ekki fjargviðrast út af því. Það er enginn vandi að klára það þannig að það gagnist frá 1. mars og framlengist þá til 1. október. Um það er ekki ágreiningur. En ég kalla eftir öllum hinum lausnunum, öllum hinum loforðunum, að við gefum unga fólkinu svör, leigjendum, Búmönnum, þeim sem verst standa, sem munu ekki fá úrræði hér, eða fara úr íbúðunum. Hvað bíður þeirra? Hvar eiga þeir að fá húsnæði í framhaldi af því? Öll þessi svör vantar.