144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

framhald umræðu um raforkumál.

[13:18]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Við tökum hér aftur til við að ræða kerfisáætlun. Eins og fram hefur komið hefur okkur verið tjáð að hv. formaður atvinnuveganefndar sé að fara að ávarpa þingið í miðri mælendaskrá sem fyrir liggur í málinu. Ég velti því upp við hæstv. forseta eða óska eftir einhvers konar skýringu á því. Í 69. gr. þingskapalaga kemur fram að unnt sé að víkja frá reglu um mælendaskrá þegar um er að ræða mál ráðherra eða framsögumanns máls. Hér er um hvorugt að ræða.