144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

framhald umræðu um raforkumál.

[13:18]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Að þessu gefna tilefni vill forseti taka fram að forseti hefur heimild til þess. Eins og kemur fram í 69. gr. getur hann vikið frá þeirri reglu við ráðherra, sem hlut á að máli, og framsögumann, svo og til þess að ræður með og móti málefni skiptist á, eða til þess að þingmaður geti gert stutta leiðréttingu eða athugasemd er snertir sjálfan hann.

Það sem fyrir forseta vakir er einfaldlega það að mjög var kallað eftir því í umræðunni að fram kæmu sjónarmið meiri hluta atvinnuveganefndar. Hér er um að ræða formann atvinnuveganefndar. Forseti mat það svo að það gæti vonandi orðið til þess að greiða fyrir umræðunni og varpa skýrara ljósi á þau áform sem uppi eru í atvinnuveganefnd, að formaður nefndarinnar, Jón Gunnarsson, tæki til máls í upphafi þessarar umræðu sem nú er um það bil að hefjast.