144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

framhald umræðu um raforkumál.

[13:19]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það kom mér mjög á óvart, og kemur, að þetta mál skuli vera komið hér á dagskrá og að forseti ætlaði að setja það á dagskrá án nokkurra skýringa á því hvernig til að mynda hefði verið unnið úr óskum okkar fjölmargra sem settum fram óskir í þeim fyrri hluta 2. umr. sem fram fór á dögunum, um að þeirri umræðu yrði frestað og málið færi til nefndar og yrði unnið með eðlilegum hætti úr þeim vanda sem upp var kominn í samskiptum atvinnuveganefndar og umhverfis- og samgöngunefndar og settur yrði einhver bragur á vinnu þingsins og samstarf þingmanna í þessu máli.

Ég tel að það alvarlegar athugasemdir hafi verið gerðar við málatilbúnaðinn og málsmeðferðina, vel rökstuddar og sanngjarnar kröfur, að það minnsta hefði verið að við fengjum einhverjar skýringar á því áður en málið yrði sett á dagskrá hver staða þess væri. Ég held að það sé ekki vænlegt — ég hef ekkert á móti því í sjálfu sér að hv. þm. Jón Gunnarsson fái að tala hér eins og aðrir þingmenn, það hefur oft ágætisáhrif (Forseti hringir.) að fá hann í ræðustólinn, eins og kunnugt er, en það þarf auðvitað að fara að þingsköpum í því.