144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

framhald umræðu um raforkumál.

[13:21]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég velti fyrir mér hvað vaki fyrir mönnum með því að gera það sem hér á að gera, þ.e. að taka formann atvinnuveganefndar og setja hann fram fyrir aðra sem eru á mælendaskrá. Við höfum haft töluverðan tíma, við höfðum gærdaginn til að fara í gegnum þetta mál og til þess að fara í gegnum þær athugasemdir sem fram hafa komið, en það var engin tilraun gerð til að nálgast okkur sem erum í umhverfis- og samgöngunefnd. Við fengum aldeilis snuprur frá formanni atvinnuveganefndar fyrir tveimur dögum þegar málið var rætt með mjög ómaklegum hætti þar sem hann fullyrti að nefndin hefði unnið málið illa og setti út á vinnubrögð samstarfsmanna sinna í þinginu. Þá hefði ég haldið að eðlilegra væri að kalla til funda og menn ræddu saman augliti til auglitis um málið í staðinn fyrir að halda áfram þeim vinnubrögðum að vera alltaf að koma okkur á óvart. Hverju þjónar það? Það þjónar engum tilgangi. Hvers vegna geta menn ekki einfaldlega sest saman niður, (Forseti hringir.) fulltrúar beggja nefnda, rætt þessi mál og reynt að greiða úr þeirri flækju sem uppi er? Ég skil ekki þessi vinnubrögð.