144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

framhald umræðu um raforkumál.

[13:22]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil líka lýsa undrun minni yfir því að þetta mál sé komið á dagskrá núna. Mikið var tekist á um það í umræðunni í fyrradag og kom alveg skýrt fram að á því voru það miklir gallar að atvinnuveganefnd þyrfti að taka málið aftur inn eða vísa því til ráðherra til betri skoðunar til að mæta öllum þeim gagnrýnissjónarmiðum sem hafa komið fram. Ef hv. þm. Jón Gunnarsson ætlar að leggja eitthvað til málanna núna finnst mér undarlegt að hann hafi ekki notað þennan tíma til að ræða við þá aðila sem voru með gagnrýni byggða á umsögnum sem komu fyrir nefndina. Ég átta mig ekki alveg á því hvaða boðskap hann ætlar að flytja sem er svo brýnn að hann þurfi að fara fram fyrir aðra í þeirri röð sem liggur fyrir í þessari umræðu.