144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

framhald umræðu um raforkumál.

[13:26]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Mér nægja í sjálfu sér alveg þau skilaboð, þótt án skýringa séu, að málið er komið á dagskrá. Meiningin var að halda 2. umr. áfram eins og ekkert hefði í skorist … líka forseta Alþingis sem veit vel hvað fór hér fram í fyrradag. Þetta gengur einfaldlega ekki og breytir ekki öllu hvað hv. þm. Jón Gunnarsson mundi segja hér. Það gengur ekki að málið sé komið á dagskrá og keyra eigi umræðuna áfram og gera ekkert með þær óskir og kröfur sem bornar voru fram um að unnið yrði sómasamlega að þessu, að samskiptum nefndanna væri kippt í lag eða að minnsta kosti reynt að vinda ofan af því tjóni sem fautaleg vinnubrögð formanns atvinnuveganefndar og fylgismanna hans hafa skapað. Þetta er meiri háttar uppákoma í samskiptum þingnefnda þannig að það er leitun að öðru eins og það hlýtur að varða okkur öll og forseta þar með talinn að leyst sé úr þessum málum. Ég var með þá hugmynd líka, virðulegur forseti, að málið yrði rætt í forsætisnefnd. Við höfum ekki komið saman síðan þessi langa lota stóð í fyrradag þannig að það er mikið sem vantar upp á að það sé í lagi að skella bara málinu hér aftur á dagskrá.