144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

framhald umræðu um raforkumál.

[13:28]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þetta vekur mann til umhugsunar um samskipti fastanefnda Alþingis. Eins og við vitum kaus meiri hluti hv. atvinnuveganefndar að taka ekkert tillit til umsagnar umhverfis- og samgöngunefndar. Til hvers var þá sá leiðangur farinn að óska eftir umsögn ef það átti algjörlega að hunsa hana og ekki taka neitt tillit til hennar og þeirra miklu athugasemda sem komu fram í umsögnum sem komu fyrir nefndina? Núna virðist sem það eigi að leika sama leikinn. Það kom í ljós í dag í atvinnuveganefnd að ekki hafði verið send inn beiðni um umsögn frá umhverfis- og samgöngunefnd þegar fjallað var um rammaáætlun eða Hvammsvirkjun í nýtingarflokki að viðbættum þeim kostum sem hv. atvinnuveganefnd lagði til að bættust við. Þá var algjörlega hunsað að verða við (Forseti hringir.) þeirri beiðni minni að málið færi líka til umsagnar þeirra nefnda. Þetta eru mjög alvarleg vinnubrögð sem ég held að hæstv. forseti ætti að skoða virkilega vel í forsætisnefnd.