144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[13:49]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér kemur fram í máli hv. formanns atvinnuveganefndar að hann telji málið afar aðkallandi og mikilvægt og ég skal ekki draga úr því. En ég vil brýna hv. þingmann hvað það varðar að þá dugar ekki að hv. atvinnuveganefnd ljúki málinu með öllum þeim fyrirvörum sem við höfum um að það hafi verið vel gert eða ekki. Þegar um er að ræða svona stórt mál er hv. þingmaður í raun og veru að teppaleggja fyrir átök með þeim fyrstu skrefum sínum í því að leggja málið fram til 2. umr., átök hér fyrst við stjórnarandstöðu, við fulltrúa úr stjórnarflokkunum í umhverfis- og samgöngunefnd, við sveitarfélögin, við Skipulagsstofnun, við náttúruverndarsamtök o.s.frv.

Þetta mál er af þeirri stærðargráðu að það gengur ekki, virðulegur forseti, að hv. þingmaður haldi að hann geti og eigi að ljúka því með yfirgangi. Það er ekki hægt, vegna þess að þar með er þingmaðurinn að koma í veg fyrir að málið fái eðlilegan framgang og verði það (Forseti hringir.) verkfæri sem það sannarlega þarf (Forseti hringir.) að vera hvað varðar þennan mikilvæga málaflokk (Forseti hringir.) og að hann umgangist málið sem það aðkallandi mál sem hann segir það vera.