144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[13:52]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er náttúrlega mynstur. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hv. þingmaður og formaður atvinnuveganefndar veldur uppnámi í þinginu með vinnubrögðum sínum, það er ekki í fyrsta skipti. Það er því ekki undarlegt þótt menn horfi hér á þau vinnubrögð, það er eðlilegt. Hér er allt í uppnámi, virðulegur forseti. Formaður atvinnuveganefndar er kominn inn á mælendaskrá með sérstakri tilvísun í þingsköp. Það þarf að fara að beita sérstökum og sértækum úrræðum til þess að hv. þingmaður geti tjáð sig.

Við erum með málið í uppnámi í þinginu þannig að þetta dugar ekki, þrátt fyrir allar skýringar hv. þingmanns á því hvernig vinnan hafi verið í atvinnuveganefnd. Það dugar ekki. Staðan á málinu er orðin ótæk. Staðan á málinu er ótæk og af hverju er það? Látum liggja á milli hluta af hverju það er en ekki er hægt að halda málinu áfram öðruvísi en að ná að stilla saman strengi atvinnuveganefndar og umhverfis- og samgöngunefndar, stilla saman strengi gagnvart Sambandi íslenskra sveitarfélaga, gagnvart Skipulagsstofnun, gagnvart umhverfis- og (Forseti hringir.) náttúruverndarsamtökum og með því að við öðlumst (Forseti hringir.) sameiginlegan skilning á því hvernig umsagnarhlutverk (Forseti hringir.) á að vera innt af hendi milli nefnda þingsins. (Forseti hringir.) Það er verkefnið og við komumst ekki lengra nema því verði lokið.