144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

kvöldfundur.

[14:42]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég heyri ekki betur en að hæstv. forseti sé að boða til atkvæðagreiðslu um kvöldfund sem er nokkurt uppbrot í því sem hér hefur verið viðhaft, þ.e. við erum í febrúarmánuði og hér er augljóslega verið að bregðast við þeirri uppákomu sem hv. formaður atvinnuveganefndar ber fulla ábyrgð á, einn og sér og sjálfur. Svo virðist sem stjórnarmeirihlutinn ætli að standa með honum í því og virðulegur forseti af því tilefni að boða til kvöldfundar sem ekki lá fyrir í upphafi þingfundar í morgun. Ég verð að gera mjög alvarlegar athugasemdir við þessi áform og vil líka segja að ég held að það sé einboðið að það liggur fyrir að ekkert mun annað gerast en að sá átakahnútur sem hér hefur verið efnt til mun herðast með slíkri nálgun þegar við ættum frekar að nýta tímann í að tala saman og reyna að nálgast hvert annað. Hér er ekki það stór vandi undir (Forseti hringir.) að ekki sé hægt að leysa hann ef einhver vilji væri til þess.