144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

kvöldfundur.

[14:48]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég skil ekki alveg hvers vegna ríkisstjórnarmeirihlutinn á þingi vill efna til þess ófriðar sem hér er verið að boða með því að boða til kvöldfundar um þetta mál. Hæstv. forseti gerði vel í því að gefa hérna tíma til að freista þess að menn næðu saman í millitíðinni en mér er þá ljúft og skylt að upplýsa forseta um það, vegna þess að ég er einn af aðilum máls, að það var aldrei haft samband við nokkurn mann í því efni. Tilraunir til að koma einhverjum skilaboðum um vilja til slíks voru ekki mótteknar. Það var einfaldlega aldrei vilji til þess, það var aldrei reynt, þannig að hæstv. forseti viti að þeir sem hann er nú að vinna fyrir með því að taka ákvörðun um þennan kvöldfund reyndu aldrei og höfðu engan áhuga á að ná sátt um þetta mál.

Það stendur enn til boða. Það eru nokkur atriði sem hægt er að laga og auðvelt er að laga ef viljinn er fyrir hendi. Meira að segja hefur formaður atvinnuveganefndar (Forseti hringir.) sagt að nokkur þeirra séu verðug þess að skoða betur. Hvers vegna ekki að gera það núna og láta deilurnar niður á meðan?