144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

kvöldfundur.

[14:54]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hélt þegar þetta mál var tekið á dagskrá og var ekki á dagskrá í gær að það væri vegna þess að hæstv. forseti hefði ákveðið að leiða saman þær tvær nefndir sem þyrftu að koma að afgreiðslu þess máls sem hér er til umræðu. Það kemur í ljós fyrst við umræðuna að ekki hafi verið tekin inn í afgreiðslu atvinnuveganefndar umsögn frá umhverfis- og samgöngunefnd þótt tekin hafi verið ákvörðun um að senda hana í atvinnuveganefnd með vilyrði og loforði um að það verði sérstaklega fjallað um málið í umhverfis- og samgöngunefnd. Þetta er búið að vera bölvað klúður.

Svo hélt ég áðan að hæstv. forseti hefði gripið í taumana og gert það skynsamlega. Ég var að hæla hæstv. forseta fyrir það hér frammi að gera fundarhlé til að bera klæði á vopnin og finna lausnir á þessu — en niðurstaðan er kvöldfundur. Ég er orðlaus yfir því að við séum engu nær. Hér verðum við þá að halda uppi einhverjum ræðum og ljúka okkar umræðu (Forseti hringir.) löngu áður en málið kemur til afgreiðslu í einhverri endanlegri mynd.