144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

kvöldfundur.

[14:56]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að þetta mál verður furðulegra og furðulegra eftir því sem þessum degi vindur fram. Eins og margir aðrir hv. þingmenn batt ég við það miklar vonir að í fundarhléi áðan tækist að koma málinu í einhvers konar sáttaferil. Ég heyrði ekki betur en að hv. formaður atvinnuveganefndar, Jón Gunnarsson, segði áðan að hann teldi málið mjög aðkallandi, að mikilvægt væri að vanda til þess og hann biði spenntur eftir að geta hafið þá vinnu.

Ég skil ekki hvers vegna hann kallar ekki málið aftur inn í nefndina til sín eða að forseti leggi lið við þá vinnu í stað þess að boða til kvöldfundar. Það er nokkuð ljóst að þá getur hv. atvinnuveganefnd ekki byrjað þá aðkallandi vinnu sem þarf að hefjast nú þegar.