144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[15:14]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, svokallaða kerfisáætlun. Ég vil byrja á því í upphafi máls míns að taka undir þau sjónarmið sem hafa komið fram af hálfu stjórnarandstöðuþingmanna að heppilegast væri og heppilegast sé, (Gripið fram í.) það er enn hægt að taka ákvörðun um það, að fresta þessari umræðu, taka hana út af dagskrá og atvinnuveganefnd þingsins taki hana fyrir á fundi sínum eins og tillaga hefur verið gerð um. Ég tel að það mundi auðvelda málið og endanlega flýta afgreiðslu þess. Það væri unnt að samþykkja málið, eflaust í sátt, ef svo væri gert en það yrði alla vega látið á það reyna.

Hv. formaður atvinnumálanefndar þingsins steig í pontu í upphafi fundar að loknu matarhléi og í máli sínu kom hann að sumu leyti til móts við þá gagnrýni sem hefur verið sett fram þegar hann sagði að að áliti sínu kæmi vel til greina að ræða kerfisáætlun um uppbyggingu flutningskerfis rafmagns á svipuðum forsendum og rætt er um samgönguáætlun. Hvað er hv. þingmaður að fara með því? Jú, að verða við þeim ábendingum sem hafa komið fram um að tengja ákvarðanir í þeim efnum lýðræðinu. Hér eru lýðræðislega kjörnir fulltrúar sem kæmu þá að umræðunni, en gagnrýnin hefur m.a. gengið út á þetta.

En það er ekki þar með sagt að hann sé þar með búinn að verða við þeim óskum og þeirri gagnrýni sem hefur komið fram af hálfu stjórnarandstöðunnar, síður en svo, og langar mig til að gera örlítinn útúrdúr á mínu máli til að færa rök fyrir því sem ég vil nú segja. Það snýr að þingmáli sem var á dagskrá þingsins í gær en kom ekki til umræðu. Hvað skyldi það hafa verið? Það er tillaga til þingsályktunar um eflingu ísaldarurriðans í Þingvallavatni. Hvað eiga þessi mál hugsanlega sameiginlegt?

Þingsályktunartillagan um ísaldarurriðann í Þingvallavatni gengur út á að efla og endurbæta hrygningarstöðvar Þingvallaurriðans og er vikið að ýmsum leiðum til að ná því fram. Ég vil taka fram að ég er einn meðflutningsmanna málsins, það er hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem er 1. flutningsmaður og hann á lof skilið fyrir baráttu sína fyrir lífríki Þingvallavatns og Þingvallaurriðans sérstaklega, ætli það séu ekki 25 ár, aldarfjórðungur, sem hann hefur setið á þingi, haldið þessu máli gangandi og orðið nokkuð ágengt. Hér eru tillögur sem enn mundu styrkja stöðu lífríkisins og þá Þingvallaurriðans sérstaklega. Til dæmis er gert ráð fyrir því að gera sérstakan fiskveg um Efra-Sogsvirkjunina.

Efra-Sogsvirkjunin, Steingrímsstöð eins og hún er kölluð, var reist árið 1959. Ég spurði hv. þm. Össur Skarphéðinsson í hádegishléi um mat hans á því hvort slík virkjun yrði reist í dag ef hún væri ekki til staðar. Hann sagði að hann væri ekki í nokkrum einasta vafa um að svo yrði ekki. Hvers vegna? Vegna þess að menn eru meira meðvitaðir um umhverfið og það eru fleiri menn eins og ég, sagði hv. þingmaður, sem mundu stíga fram og efna til mikillar umræðu í þjóðfélaginu um málið og á grundvelli þess mundu menn endurmeta áform sín. En það er mjög mikilvægt að slík gagnrýni fyrir hönd lýðræðisins eigi sér kerfislægar brautir og hann klykkti út með því að segja: Um þetta fjallar deilan um það frumvarp sem er til umræðu í þinginu, um það hvernig við veitum gagnrýni inn í ákvarðanir sem eru teknar hvað varðar dreifingu og flutning á raforku sem getur valdið umhverfisspjöllum svo um munar. Og nú langar mig til þess að vísa í greinargerð með þessu frumvarpi, vegna þess að í greinargerðum er yfirleitt í upphafsorðum tekinn saman meginkjarninn í málinu. Þetta eru 14–15 línur og hér segir, með leyfi forseta:

„Með frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á III. kafla raforkulaga, nr. 65/2003, sem lýtur að uppbyggingu flutningskerfis raforku og skyldum flutningsfyrirtækisins Landsnets hf.

Með frumvarpinu er lagt til að við III. kafla laganna verði bætt nýjum greinum sem fjalla sérstaklega um kerfisáætlun flutningsfyrirtækisins, þ.e. undirbúning hennar, efnislegt innihald, stöðu, framkvæmd og eftirfylgni. Samhliða því er með frumvarpinu lögð til breyting á núverandi fyrirkomulagi leyfisveitingar Orkustofnunar vegna nýrra flutningsvirkja, til einföldunar og aukinnar skilvirkni.

Frumvarpið er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu að höfðu samráði við Orkustofnun, flutningsfyrirtækið Landsnet og Samband íslenskra sveitarfélaga. Hinn 27. júní 2014 voru drög að frumvarpinu birt á heimasíðu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins til kynningar og umsagnar. Rúmlega tuttugu umsagnir bárust ráðuneytinu og voru gerðar nokkrar breytingar á frumvarpsdrögunum með vísan til ábendinga sem bárust í umsagnarferlinu áður en frumvarpið var lagt fram á Alþingi.“

Hæstv. forseti. Hvað er það sem kemur fram í þessum inngangsorðum, í þessari samantekt í greinargerð með frumvarpinu? Í fyrsta lagi kemur fram að verið er að búa til heildstætt kerfi. Þessi lög fjalla um heildstætt kerfi, hvernig við ætlum að haga raforkudreifingu, hvaða reglur eigi að gilda og hvaða aðilar komi þar að, hvaða ákvörðunaraðilar komi þar að málum. Ég nefndi áðan að menn hefðu saknað þess að Alþingi kæmi að málunum og í því sambandi vék ég að þeim orðum hv. þm. Jóns Gunnarssonar að eðlilegt væri að ræða þetta þegar við ræddum samgönguáætlun. En það er ekki næstum því nóg vegna þess að annar þátturinn sem kemur fram í þessum 14 lína inngangskafla lýtur að skilvirkni, að kerfið sé skilvirkt, að menn skilji hvað er að gerast og viðurkenni leikreglurnar. Er það þannig? Nei. Umsagnaraðilarnir sem hafa látið frá sér heyra, svo sem Skipulagsstofnun sem fjallar um skipulag og skilvirkni, gagnrýna frumvarpið m.a. á þessum forsendum. Og sveitarstjórnirnar, Samband íslenskra sveitarfélaga, sem hafa með skipulag að gera í nærumhverfi sínu, gagnrýna þetta líka.

Síðan er það samráðið, það er þriðji þátturinn sem ræddur er í inngangskaflanum. Menn tala um að haft hafi verið samráð. Hverjir skyldu hafa komið þar að borði? Þeir eru taldir upp. Það er Landsnet sem er framkvæmdaraðilinn, það er Orkustofnun sem er aðili sem samþykkir og fer yfir áætlanir Landsnets, þessir tveir aðilar eru þarna einir um hituna. Það var rætt við þá og svo var rætt við Samband íslenskra sveitarfélaga. Það er eini utanaðkomandi aðilinn sem rætt var við í aðdraganda að smíði þessa frumvarps og sá aðili er andvígur frumvarpinu og segir að verið sé að taka af okkur vald í eigin héraði. Nú er ekkert einhlítt í því hverjar skuli vera leikreglurnar, annars vegar hvað varðar ríkið og hins vegar sveitarfélögin, þegar kemur að mikilvægum ákvörðunum sem snúa t.d. að orkunýtingu. Ég hef oft sett fram efasemdir um sveitarfélögin í því efni, sérstaklega fátæk sveitarfélög, að þeim sé þröngvað eða þau telji sig knúin til að samþykkja ýmislegt í ljósi þess að þau eru fjárhagslega vanmegnug og hefðu frekar viljað horfa til ríkisins í þeim efnum, en þarna þarf að vera jafnvægi. En hér erum við fremur að tala um þætti sem snúa að umhverfisvernd.

Hv. þm. Helgi Hjörvar kom með ágætt dæmi í umræðunum í gær þegar hann talaði um rafmagnslínur sem áttu að liggja frá Nesjavöllum til að flytja rafmagn til Grundartanga og áttu að fara niður Mosfellsdalinn fram hjá Gljúfrasteini. Þá reis sveitarstjórnin í Mosfellsbæ að sjálfsögðu upp og kom í veg fyrir það. Hvers vegna gat hún gert það? Vegna þess að hún hafði skipulagsvaldið á hendi. Það var ástæðan. Þarna var komið í veg fyrir alvarlegt umhverfisslys og í því efni, þegar skipulagið snýr að því að fara varlega með nærumhverfið þar sem það er á hendi sveitarfélaganna, þá á að sjálfsögðu ekki að taka þetta vald frá þeim. Skipulagsstofnun gagnrýnir frumvarpið, sveitarstjórnirnar gera það líka, báðir aðilar sem hafa skipulag og skilvirkni, leiðir til að efla hana, á sinni könnu. Síðan eru það þeir aðilar sem ekki eru þarna og sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson ýjaði að að hefði þurft að koma að málinu þegar Steingrímsstöðin var reist, þegar Efra-Sogsvirkjun var reist undir lok sjötta áratugarins, og það eru náttúruverndarsamtök. Þegar frumvarpið er í smíðum kemur fram, eins og í þeim texta sem ég las upp, að þau voru ekki kölluð að borðinu en þau komu hins vegar fyrir atvinnuveganefnd Alþingis og höfðu þar tækifæri til að setja álit sitt fram. Það var reyndar búið svo um hnútana að umhverfisnefnd Alþingis fengi málið til umfjöllunar og nefndin tók málið til umfjöllunar, en það var ekki sett inn í álit meiri hlutans þegar málið var síðan sett fram á þingi og við höfum heyrt sagt í þingsölum að langan tíma hafi tekið að vinna málið. Mér finnst það ekki neinn áfellisdómur yfir umhverfisnefnd að taka sér góðan tíma til að vinna málið. Þetta er mál af þeirri stærðargráðu að það þarf að vinna það vel, það þarf að gefa sér góðan tíma, það á ekki að hrapa að neinu í þeim efnum, það á ekki að gera það. Ef ekki hefði verið vegna minni hlutans sem birtir álit umhverfisnefndar í plöggum sínum hefði þetta ekki birst þinginu við umræðuna, álit umhverfisnefndar, eða þannig skil ég málið.

Mig langar til þess að lesa nokkrar línur aftur, að þessu sinni úr samantekt sem birtist með umsögn Landverndar um þetta frumvarp. Hér segir, með leyfi forseta:

„Landvernd gerir alvarlegar athugasemdir við frumvarp til breytinga á raforkulögum. Breytingarnar myndu meðal annars lögfesta að virkjunarhugmyndir í nýtingar- og biðflokki rammaáætlunar megi nota sem grunnforsendur fyrir áætlunum og framkvæmdum í flutningskerfi raforku (kerfisáætlun). Þetta er með öllu óraunhæft og samræmist ekki rammaáætlunarlögum þar sem skýrt er að þó svo að virkjunarhugmynd lendi í nýtingarflokki, hvað þá í biðflokki, þýðir það ekki að þar verði sjálfkrafa virkjað. Í frumvarpinu eru leyfisveitingar einfaldaðar úr hófi fram og stórlega dregið úr ákvörðunar- og skipulagsvaldi sveitarfélaga. Aukið ákvörðunarvald flutningsfyrirtækisins (Landsnets) yfir eigin framkvæmdatillögum yrði ótækt. Orkustofnun yrði falið eftirlit sem stofnunin getur ekki sinnt við núverandi lagaumhverfi. Í heild sinni drægi frumvarpið úr umhverfisvernd í landinu, auk þess sem óljóst yrði með kærurétt umhverfisverndarsamtaka vegna ákvarðana um einstakar framkvæmdir í flutningskerfinu. Öll tvímæli ber að taka þar af í samræmi við fullgildingu Íslands á Árósasamningnum.“

Hér kemur einn þátturinn til viðbótar. Þarna er tekið undir þá gagnrýni sem ég vísaði til í orðum mínum hér að framan en einnig er það tínt til að breytingarnar mundu meðal annars lögfesta að virkjunarhugmyndir í nýtingar- og biðflokki rammaáætlunar megi nota sem grunnforsendur fyrir áætlunum og framkvæmdum í kerfisáætlun. Hvað erum við þá með í höndunum? Við erum með framkvæmdaraðilann sem heitir Landsnet. Síðan erum við með Orkustofnun sem á að hafa eftirlit með framkvæmdunum á vegum Landsnets þegar þar að kemur og hún fær áætlanir þeirra til skoðunar og samþykkir eða gagnrýnir eftir atvikum. En það sem vantar í þetta heildstæða kerfi sem verið er að smíða er aðkoma sveitarfélaganna og umhverfissamtaka. Það þarf að tryggja það kerfislægt. Það er ekki nóg að einstaklingar skrifi í blöð eða samtök álykti, þau þurfa að hafa kerfislæga aðkomu að málinu.

Síðan er hitt. Við skulum taka ákvarðanir á borð við þá sem hefur verið deilt um, að hér yrðu lagðar raflínur yfir hálendið, og þá er spurningin: Hvernig yrði staðið að slíku? Þessir aðilar mundu þá véla um það, Landsnet og síðan Orkustofnun, en hvar er aðkoma annarra? Það er búið að skipta öllu landinu í sveitarfélög, það er búið að útiloka þau frá allri aðkomu að þessu máli. Það eru mörg dæmi sem hægt er að taka í seinni tíð um hve vafasamt það er að kippa sveitarfélögunum út úr ákvörðunarferli og nefni ég þar til dæmis vegalögin. Við munum eftir deilum sem voru varðandi Svínvetningabraut í Húnavatnssýslu þegar Vegagerðin vildi setja veg fram hjá Blönduósi og sveitarstjórnin þar var mjög óánægð með það. Þá var sett niður nefnd. Það var gert í tíð síðustu ríkisstjórnar og ég hafði forgöngu um það. Það var sett niður nefnd til að reyna að ná sátt um það hver aðkoma sveitarstjórnanna yrði að ákvarðanatöku. Ég veit ekki betur en það hafi tekist bærilega. Þetta eru hlutir sem við í stjórnarandstöðunni höfum verið að benda á, að það þurfi að finna leiðir og í stað þess að standa hér og endurtaka röksemdirnar hvert frá öðru þá er furðulegt að ekki sé hægt að taka ákvörðun um að gera hlé á umræðunni og fara með umræðurnar inn í nefndina að nýju, vegna þess að rökin eru kunn. Þau eru skilmerkilega fram sett af hálfu Landverndar. Þau eru skilmerkilega fram sett af hálfu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þau eru skilmerkilega fram sett af hálfu Skipulagsstofnunar og þau eru skilmerkilega fram sett af hálfu þeirra sem sitja í nefndinni og eru að útbúa texta sem við fáum síðan til afgreiðslu hér, til umræðu og svo atkvæðagreiðslu. Við erum í anda þess sem segir í frumvarpinu að biðja um skilvirkni í vinnubrögðum um þetta mikilvæga mál. Þess vegna viljum við ekki láta hrapa að neinu. Við viljum láta taka alvarlega þær ábendingar sem hafa komið frá umhverfisnefnd Alþingis, frá Sambandi sveitarfélaga, frá Skipulagsstofnun og síðast en ekki síst frá Landvernd sem hefur það fyrst og fremst á sinni könnu að vernda landið. Það er nokkuð sem við, sem tökum þátt í þessari umræðu, viljum gera líka og hvetjum til þess að gert verði hlé á umræðunni og málið tekið inn í umhverfisnefnd og rætt þar í ljósi þess sem hér hefur komið fram.