144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[15:36]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um það. En þarna er um að ræða mjög veigamikinn þátt, að það séu skýrar heimildir um kærur, en síðan þarf líka á annan hátt að reyna að tryggja kerfislæga aðkomu umhverfisverndarsamtaka á öllum stigum ákvarðana. Þau þurfa að komast með einhverjum hætti að því borði.

Ég er ekki sérfróður um þetta mál og sit ekki í atvinnuveganefnd, þar hafa menn eflaust rætt ýmsar leiðir í því efni. Ég er fyrst og fremst að tala um prinsippið almennt eða þá grunnhugsun að þegar ákvarðanir af þessu tagi eru teknar sem varða flutning á raforku um landið, sem getur haft í för með sér umtalsverða röskun á umhverfinu, þá komi umhverfissamtök þar að borði. Ég tel líka að sveitarstjórnirnar þurfi að koma þar að málum.

Þegar ég kom í þingið eftir hádegishléið hlustaði ég á umræðu í útvarpinu. Það var viðtal við einstakling sem ég náði ekki hver var en hann var að tala um skipulagsmál og aðkomu sveitarfélaganna að málum sem tengjast umhverfisvanda og lagði áherslu á að við þyrftum að hugsa heildrænt. Það á að vera markmið þeirra sem leggja fram frumvarp af þessu tagi, að kalla alla að borði og gera það sem hv. þingmaður nefndi, að reyna að ná sem breiðastri sátt um vinnureglurnar, um aðkomu aðila að málinu. Það er það sem verið er að hunsa með því að virða ekki sjónarmið okkar meira en svo að halda umræðunni áfram þegar beðið er um það eitt að hlé sé gert á umræðunni og hún tekin að nýju inn í nefnd áður en 2. umr. er kláruð.