144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[15:43]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú koma tvenns konar sjónarmið við sögu þegar verið er að taka ákvarðanir um flutning á raforku. Annað varðar skilvirkni, hvernig hægt er að gera hlutina ódýrast. Síðan er hitt sjónarmiðið, hvað gæti það kostað umhverfið eða samfélagið? Það er umhverfissjónarmið. Auðvitað þarf að hlusta á hvort tveggja. Ég tel að þegar hugsað er um hagsmuni landsins til mjög langs tíma megi umhverfissjónarmiðin alls ekki vera fyrir borð borin. Þess vegna finnst mér forkastanlegt ef ekki á að taka fullt tillit til þeirra sjónarmiða sem koma frá umhverfisnefnd þingsins.

Nú ættu formenn þessara tveggja nefnda að sitja í hliðarsal og komast að samkomulagi um að taka málið aftur inn í nefnd. Við skulum ekki gleyma því að í grundvallaratriðum eru menn á Alþingi sammála um mikilvægi margra þátta í þessum tveimur þingmálum sem hanga hér saman. Það er staðreyndin Við viljum hafa þetta í eins góðum farvegi og kostur er í eiginlegum og óeiginlegum skilningi og þá er ég að hugsa um jarðstrengi o.s.frv. Menn vilja gera þetta þannig. Og af hverju ekki að byggja á þeim góða vilja okkar allra til að ná samkomulagi um málið? Er þá ekki rétt að láta reyna á hvort slíkt samkomulag gæti tekist með því að gera hlé á þessu tali og setjast yfir hugsanlegar breytingar á þessu frumvarpi? Ef ekki næst saman um það er það fullreynt, þá deilum við um málið hér og greiðum síðan um það atkvæði. En við skuldum (Forseti hringir.) Íslandi annað eins og það að fara vel með landið og það gerum við ekki með því að afgreiða málið með þessum hætti.