144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[15:53]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé rétt að í raun er verið að gera tilraunir til að koma málum eins og þessu í kerfislægt form, þ.e. búa til áætlanir til lengri tíma, annars vegar þriggja ára og hins vegar tíu ára. Ég lít þannig á að þá sé verið að tala um að einmitt þau sjónarmið sem hv. þingmaður kynnir hér, þ.e. umhverfissamtök og aðrir, komi að þeirri áætlunargerð.

Vandinn er eftir sem áður að í þessu frumvarpi er ekki fjallað um að Alþingi komi að þessu. Hv. þingmaður gerði ágætlega grein fyrir því að hann teldi að svo ætti að vera og ég ætla, til að gæta alls réttlætis, að geta þess að hv. formaður atvinnuveganefndar taldi að það ætti að laga það. Þá er eftir aðkoma sveitarfélaganna, að beita valdi þar án þess að það sé sett í eitthvert ákveðið ferli. Hv. þingmaður nefndi Teigsskóg. Menn geta lent í stoppi en þá er spurningin að vera að minnsta kosti með leiðir til að leita sátta áður en menn klippa á. Hér er verið að kippa sveitarfélögunum til hliðar í ákveðnum málum (Forseti hringir.) og þegar hingað er komið að sleppa því ef það þóknast viðkomandi áætlunargerðarmönnum.