144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

lengd þingfundar.

[16:06]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er rétt að halda því til haga hvernig þessa hluti bar að. Það er upplausn í störfum þingsins út af framgöngu meiri hluta atvinnuveganefndar undir forustu hv. þm. Jóns Gunnarssonar. Hlé var gert á fundum sem var svo framlengt og framlengt til að reyna að ná sáttum um það mál. Menn bundu vonir við að það kæmist einhver skikkur á þingstörfin í framhaldinu en þá er fyrirvaralaust boðað að lausn málsins sé að skella á næturfundi og boðuð atkvæðagreiðsla nánast án fyrirvara um það sem enginn átti von á og alls ekki var gert ráð fyrir í skipulagi þingsins á þessum degi. Mönnum er nokkur vorkunn að taka sér rétt til að bregðast við þessu með óhefðbundnum hætti. Annað eins hefur gerst. Þetta er uppskeran, þetta er í boði hv. þm. Jóns Gunnarssonar, allt saman, og verði ykkur að góðu.