144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

lengd þingfundar.

[16:09]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Mér finnst svolítið vel í lagt hjá hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur að kalla salerni á neðri hæð hliðarsal Alþingis. Ég var þar á meðan þessi atkvæðagreiðsla fór fram. (UBK: Ég var ekki að tala um þig persónulega.) Nei, það var verið að tala um þá sem ekki mættu til atkvæðagreiðslu. Það geta verið ólíkar skýringar á því, eins og hv. þingmaður sagði, hvers vegna menn mæta ekki í salinn. Fyrst og fremst er hér verið að deila um hvers vegna verið er að efna til ófriðar um mál sem á að vera hægt að ná sátt um. Það er á ábyrgð þeirra sem þarna eru og ég ætla að biðja hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur að muna það í fyrramálið. Ef menn ætla að nota valdbeitingu hlýtur það að kalla á að við efnum til ófriðar í þessu þingi.

Það er enginn að biðja um að fara í neinar kúvendingar. Við erum að biðja um ákveðnar lausnir og það er búið að stinga upp á þeim. Ég á eftir að flytja ræðu við 2. umr. Taktíkin er greinilega sú að láta okkur klára ræðutímann þannig að við getum ekki fjallað um málið. Það er ekki einu sinni yfirlýsing frá hv. formanni atvinnuveganefndar um að það eigi að fjalla um þetta með umhverfis- og samgöngunefnd, ekki orð um það. (Forseti hringir.) Ef menn ætla að keyra þingið með þessum hætti fáið þið ófriðinn. Það er það sem er því miður að gerast og er dapurlegt.