144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

lengd þingfundar.

[16:17]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Þessi málflutningur er með eindæmum. Ég kannast ekki við að nokkur stjórnarliði sem komið hafi upp hafi vælt eða kvartað yfir því að vera í þinginu að greiða atkvæði. Það er einfaldlega rangt. Einnig vísa ég á bug þeim orðum hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur að ekki hafi verið sátt um að taka þetta mál út úr nefndinni, eitthvað í þá áttina, og það væri óunnið. Undir nefndarálitið skrifar meðal annarra fulltrúi úr stjórnarandstöðunni, annar fulltrúi stjórnarandstöðunnar var fjarverandi (Gripið fram í.) og ég skil ekki alveg þennan málflutning. Eigum við ekki bara að halda áfram með dagskrá þingsins og vera í þinginu fram á kvöld? Menn geta þá tjáð sig um þetta mál eins og menn greinilega vilja gera og klárað þessa umræðu.