144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

lengd þingfundar.

[16:18]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er hálfgrátbroslegt að heyra stjórnarþingmenn koma hingað upp og gagnrýna vinnubrögð stjórnarandstöðunnar og horfa ekkert til þess að það er búið að binda þetta mál í rembihnút af þeirra eigin fólki. Þetta snýst ekki um þessa atkvæðagreiðslu til eða frá heldur að við stöndum frammi fyrir því að hafa í höndunum mál sem hægt væri að leysa ef einhver vilji væri fyrir því og einhver vottur af skynsemi. Menn geta ekki látið eins og aldrei hafi komið til þess að menn hafi ekki verið við atkvæðagreiðslu. Hér inni eru þingmenn sem ættu að muna mætavel eftir því frá síðasta kjörtímabili sem voru þá í forsvari fyrir slíku. Það er ekki eins og þetta hafi aldrei gerst á hv. Alþingi.

Ég býð mig fram sem varaformaður atvinnuveganefndar til að taka þetta mál út núna með hv. formanni atvinnuveganefndar og leita sátta með þeim sjónarmiðum (Forseti hringir.) sem eru þarna á borðinu og umhverfis- og samgöngunefnd.