144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

lengd þingfundar.

[16:19]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég mætti hér í morgun og er búinn að hlýða á umræðurnar í dag. Ég hlýddi líka á umræður í fyrradag um þetta mál og mér finnst alltaf gaman að hlýða á ræður hv. stjórnarandstæðinga, hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur og ekki hvað síst hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem er búinn að fara mikinn í þessu máli.

Ég var ekki að væla yfir nokkrum hlut. Ég benti einfaldlega á þá staðreynd að áðan fór stjórnarandstaðan fram og sinnti ekki lögbundnum skyldum sem kveðið er á um í þingsköpum, þar sem kveðið er sérstaklega á um að menn eigi að mæta til atkvæðagreiðslna. Ég fagna því hins vegar að þingið hafi samþykkt kvöldfund vegna þess að ég hlakka til að hlýða áfram á ræður þeirra hv. þingmanna sem eiga eftir að tjá sig í þessu máli og vonast til þess að þetta mál geti sem fyrst komist í gegnum 2. umr. og þá aftur til hv. atvinnuveganefndar þar sem hægt er að fara yfir þau mál sem komið hefur verið inn á í umræðunni eins og einmitt er gert ráð fyrir þegar við erum að fjalla um mál í þinginu. En mér finnst alveg ótrúlegt að hlýða á umræðuna hérna og maður veltir því auðvitað (Forseti hringir.) fyrir sér hver það er yfir höfuð sem er að væla. Það var að minnsta kosti ekki sá sem hér stendur. Þetta var einföld og stutt ábending í upphafi (Forseti hringir.) og ég hlakka til að hlýða á fleiri ræður inn í kvöldið.