144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

lengd þingfundar.

[16:29]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Stjórnarandstaðan hefur kallað eftir því alveg síðan málið komst á dagskrá á þriðjudaginn og ljóst var hvernig málatilbúnaðurinn var allur saman að taka málið inn í atvinnuveganefnd, hleypa öðru máli á dagskrá á meðan nefndin færi yfir til dæmis umsögn umhverfis- og samgöngunefndar og taka svo aftur til við umræðu um málið. Á þetta er ekki hlustað. Hvernig svarar hæstv. forseti ákalli stjórnarandstöðunnar um sáttameðferð í málinu? Hann svarar því með því að leggja til kvöldfund.

Ég spyr hæstv. forseta hvernig standi á þessu og hvort það sé einhver hefð í stjórnmálunum, einhver átakahefð sem menn geta ekki brotist út úr, geta ekki stigið eitthvert nýtt skref til að breyta hér ástandi? Ég hélt að það hefði einmitt (Forseti hringir.) verið það sem hæstv. forseti vildi gera þegar hann tók við þessu starfi, að víkja frá átakastjórnmálunum.