144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[16:33]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna að það kom mér talsvert á óvart í gærkvöldi þegar ég sá að þetta mál, frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum, kerfisáætlun, væri á dagskrá þingsins í dag. Ég hélt satt að segja að eftir umræðu þriðjudagsins hefði verið svo augljóst að ekkert annað væri í stöðunni en að kalla málið aftur til nefndar til frekari vinnslu og gera hlé á umræðunni. Ég taldi að úr því að ekki var hreinlega gert hlé á umræðunni þegar hún var aðeins að skríða af stað, að við mundum nota það náttúrulega hlé, ef svo má segja, sem varð á umræðunni þegar þingfundi var slitið laust fyrir miðnætti á þriðjudagskvöldið og að þar með kæmi málið ekki aftur á dagskrá fyrr en nefndin væri búin að fjalla um það. Auðvitað hefði átt að taka málið svo að segja strax aftur inn í nefndina og vinna úr þeim athugasemdum sem fyrir liggja og vinna með hv. umhverfis- og samgöngunefnd að úrbótum á frumvarpinu, eins og fram kemur í nefndaráliti þeirra.

Ég verð að segja að eftir daginn í dag og umræður um fundarstjórn forseta með þeim hléum sem hefur þurft að gera skil ég ekkert í að við ætlum að halda áfram með umræðuna og að það eigi meira að segja að keyra með málið inn á kvöldfund. Ég ætla bara rétt að vona að þeir stjórnarliðar sem leggja svona ríka áherslu á að við höldum áfram að ræða þetta mál inn í kvöldið, verði þá hér og taki þátt í umræðunni.

Það sem gerir málið í mínum huga jafnvel enn furðulegra er að hv. þm. Jón Gunnarsson, kom hér upp í ræðu sem formaður hv. atvinnuveganefndar þar sem hann var settur á mælendaskrá fram fyrir þá sem þegar voru þar. Hann sagði að hann teldi málið mjög aðkallandi en sagði jafnframt að vanda þyrfti til þess og að hann biði spenntur eftir að geta hafið vinnu við málið og tekið tillit til einhverra af þeim athugasemdum sem komið hafa fram. Þess vegna skil ég enn síður hvers vegna hv. þm. Jón Gunnarsson heggur ekki bara á hnútinn og biður um að gert verði hlé á umræðunni og taki málið til nefndar og vinni úr því, eins og mér skildist að hann teldi þarft að gera. En því miður virðist málið ekki eiga að fara í þann farveg. Við höldum því umræðunni áfram. Við höfum í raun aðeins verið að sniglast áfram og haldið áfram umræðunni þar sem frá var horfið á þriðjudagskvöldið.

Mér finnst mikilvægt á þessum tímapunkti að rifja aðeins þessar umræður upp, því að við 1. umr. málsins sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, að hún teldi að þetta mál gæti vel átt heima í fleiri en einni nefnd þingsins og að hún teldi sjálfsagt að hv. atvinnuveganefnd sendi málið til hv. umhverfis- og samgöngunefndar til umsagnar. Hæstv. ráðherra sagði jafnframt að ekki væri ætlunin að þjösna málinu í gegnum þingið. Umræðan á þessum tímapunkti, við 1. umr., varð ekkert rosalega löng og kannski ekki ástæða til, en það er nú að koma á daginn að það virðist svo sannarlega eiga að þjösna þessu máli í gegnum þingið með því að láta okkur halda áfram að tala við 2. umr. um mjög vanbúið mál í stað þess að hv. formaður atvinnuveganefndar sjái bara sóma sinn í því að höggva á hnútinn og taka málið til sín.

Nú stendur yfir 2. umr. um þetta ágæta mál, sem ég held að við séum öll sammála um að sé bara nokkuð mikilvægt að klára í eins góðri sátt og hægt er, alla vega að málsmeðferðarúrræðin sem í því eru séu nokkurn veginn á hreinu, þ.e. frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum. 2. umr. hófst með því að framsögumaður málsins, hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson, mælti fyrir áliti meiri hluta hv. atvinnuveganefndar. Þingmaður eins og ég, sem hvorki á sæti í hv. atvinnuveganefnd né hv. umhverfis- og samgöngunefnd, hefði auðveldlega getað skilið af þeirri framsögu að engar stórvægilegar athugasemdir hefðu verið gerðar í umsögnum um frumvarpið. Það er í rauninni það sama og lesa má út úr nefndaráliti því sem kom frá meiri hluta hv. atvinnuveganefndar. En annað átti nú eftir að koma á daginn í umræðunni. Það kom nefnilega fram í umræðum um málið á þriðjudaginn að hv. atvinnuveganefnd sendi málið til hv. umhverfis- og samgöngunefndar til umsagnar líkt og hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra benti á að væri sjálfsagt að gera.

Þau undarlegu vinnubrögð voru svo viðhöfð að málið var tekið úr atvinnuveganefnd áður en umsögn barst frá umhverfis- og samgöngunefnd. Hæstv. forseti. Ég verð því að taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa furðað sig á þessum vinnubrögðum og hafa velt upp spurningum um vinnufyrirkomulagið í þinginu. Mér finnst það einboðið að ef ein þingnefnd kallar á annað borð eftir umsögn frá annarri þingnefnd, og eins og dæmin sanna, meira að segja nú á síðustu vikum, geta þingmál vel átt heima hjá fleiri en einni nefnd, þá verði að taka eitthvert mark á störfum þeirrar nefndar, þau hljóta að eiga að hafa einhverja vigt. Það gengur í mínum huga ekki að þingnefndir vísi málum til annarra í því skyni að nota það til þess að stinga upp í þær snuði og halda þeim góðum, eins og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir orðaði það svo ágætlega. Það er svolítið það sem ég fæ á tilfinninguna að sé verið að gera, að hér sé því ekki nema um einhvers konar sýndarsamráð eða sýndarsamvinnu að ræða á milli nefnda. Það finnast mér mjög skringileg og hreinlega ekki boðleg vinnubrögð og það sýnir ekki vinnutíma okkar þingmanna mikla virðingu.

Svo ég snúi mér aftur að meirihlutaáliti atvinnuveganefndar, sem er kannski stóra efnislega málið sem við eigum að vera að ræða hérna. Ég hef farið í gegnum aðdraganda málsins og hversu furðuleg umræðan um það er búin að vera, það er eitt atriði. En svo eru það sjálf efnisatriði málsins sem tala þarf um og tengjast líka vinnubrögðunum. Í meirihlutaáliti hv. atvinnuveganefndar er hvergi minnst á umsögn hv. umhverfis- og samgöngunefndar enda var málið tekið úr nefnd áður en umsögnin barst.

Hins vegar ber svo við að með nefndaráliti frá minni hluta hv. atvinnuveganefndar, sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir skrifar undir, eru umsagnir hv. umhverfis- og samgöngunefndar birtar og má kannski segja að þær varpi alveg nýju ljósi á málið efnislega, en líkt og bent var á í umræðunni um þetta mál síðastliðinn þriðjudag og varð þegar á leið meginþungi umræðunnar, er mjög lítið fjallað í nefndaráliti meiri hluta hv. atvinnuveganefndar um þær efnislegu umsagnir sem bárust um málið. Þær munu þó vera 32 auk áðurnefndra umsagna hv. umhverfis- og samgöngunefndar, ég taldi þær í gær, þær eru 32 og þær eru efnismiklar. Ég, sem ekki á sæti í nefndinni, hef ekki getað kynnt mér þær allar nema af handahófi og á miklum hlaupum, enda eru þetta um 200 blaðsíður, eins og einhver hv. þingmaður benti á í umræðunni. Ég verð því auðvitað að reiða mig á nefndarálitin og vinnuna sem farið hefur fram í fagnefndunum þegar kemur að því að taka afstöðu til málsins. Það hlýtur að vera það sem er tilgangurinn með fagnefndunum, að fram fari einhver verkaskipting og að við sem ekki sitjum í þessum nefndum getum kynnt okkur málið í nefndarálitunum og notað þau til þess að styðjast við til þess að taka afstöðu. Þess vegna skiptir svo miklu máli að nefndarálitin séu vel unnin og að maður geti treyst því að svo sé. Það skiptir líka gríðarlega miklu máli að umsagnir hv. umhverfis- og samgöngunefndar voru birtar með nefndaráliti minni hluta atvinnuveganefndar og kann ég minni hluta nefndarinnar bestu þakkir fyrir að hafa gert það.

Nú þegar ég er búin að rekja alla forsöguna kem ég að efnislegum atriðum málsins, þ.e. sjálfum athugasemdunum við frumvarpið og atriðum sem bent er á að færa þyrfti til betri vegar. Í frumvarpinu sjálfu, þ.e. frumvarpi til laga um breytingu á raforkulögum þar sem fjallað er um stöðu kerfisáætlana gagnvart skipulagi sveitarfélaga, segir, með leyfi forseta:

„Sveitarstjórnum ber við næstu endurskoðun aðalskipulags, og eigi síðar en innan fjögurra ára frá samþykkt kerfisáætlunar, að samræma skipulagsáætlanir vegna verkefna í staðfestri tíu ára kerfisáætlun. Sveitarstjórnum ber enn fremur að tryggja að skipulagsmál hindri ekki framgang þeirra verkefna sem eru í staðfestri þriggja ára framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar. Ákveða skal legu flutningslína í skipulagi að fenginni tillögu flutningsfyrirtækisins í samræmi við kerfisáætlun, að höfðu samráði þess og skipulagsyfirvalda.“

Þarna erum við kannski að komast að hinum efnislega kjarna málsins, þ.e. hvað þurfi að skoða hér betur. Í áliti frá minni hluta hv. atvinnuveganefndar er einmitt bent á að minni hlutinn telji að í frumvarpinu skorti á að gætt sé að skipulagsvaldi sveitarfélaga og að tekið sé tillit til umhverfissjónarmiða. En í nefndaráliti frá minni hluta hv. atvinnuveganefndar, sem er í raun svar við þessari grein í lögunum sjálfum, segir, með leyfi forseta:

„Kerfisáætlun er gert mjög hátt undir höfði og hún í raun sett ofar skipulagslögum. Flutningsfyrirtækinu er með frumvarpinu fengið mikið vald sem er afar sérstakt þar sem um einkahlutafélag er að ræða. Ekki er gert ráð fyrir því að kerfisáætlun fái umræðu á Alþingi eins og til dæmis samgönguáætlun og áætlun um vernd og nýtingu landsvæða. Minni hlutinn telur brýnt að tryggja að sjónarmið almennings komist að áður en sveitarfélögum verður skylt að setja flutningsvirki á skipulag sitt.“

Ég verð að taka undir þessi orð og þær áhyggjur sem þarna eru settar fram. Fyrst vil ég tala aðeins um það sem lýtur að skipulagsvaldinu. Þá kemur að því sem lesa má í umsögn frá meiri hluta hv. umhverfis- og samgöngunefndar, sem sagt fylgiskjali með minnihlutaáliti hv. atvinnuveganefndar, að umsagnaraðilar hafi gert miklar athugasemdir við kerfisáætlun og þau atriði sem lúta að sjálfstjórnarrétti og skipulagsskyldu sveitarfélaga. Það er sem sagt ekki fyrr en maður er búinn að lesa sig í gegnum allt efnið sem það kemur fram. Mér finnst það mjög skrýtið að þurfa að kafa í gegnum það allt eftir krókaleiðum til þess að komast að því hver sé mergurinn málsins og hvað það er í rauninni sem umsagnaraðilar gagnrýna í þessu máli.

Svo eru það umhverfissjónarmiðin, en bent er á að þeim sé ekki nægilega vel haldið til haga eða tekið tillit til þeirra. Bæði meiri hluti og minni hluti hv. umhverfis- og samgöngunefndar fjalla um að samkvæmt a-lið 3. mgr. 9. gr. í frumvarpinu skuli, með leyfi forseta, kerfisáætlun til tíu ára:

„… byggja á raunhæfum sviðsmyndum um þróun raforkuframleiðslu, raforkunotkunar, markaðsþróunar og raforkuflutnings til annarra landa eftir því sem við á og að í kerfisáætlun skuli gera grein fyrir forsendum, sviðsmyndum og spám sem stuðst er við.“

Þetta er sem sagt það sem öll hv. umhverfis- og samgöngunefnd segir að þurfi að skoða og eins og minni hluti umhverfis- og samgöngunefndar bendir á er ljóst að með þessu er verið að raða öllum virkjunarkostum úr nýtingarflokki og biðflokki inn í það sem við ætlum að taka með í reikninginn þegar við skipuleggjum það rafmagn sem við höfum til framtíðar.

Eins og ég hef farið í gegnum hér er að finna ríkar efnislegar athugasemdir sem maður les eða grefur sig í gegnum í nefndarálit minni hluta hv. atvinnuveganefndar. Þær eru svo efnismiklar, það er svo mikið sem þarf að breyta (Forseti hringir.) og mér finnst að meiri hluti hv. atvinnuveganefndar eigi að sjá sóma sinn í því að kalla málið til sín strax (Forseti hringir.) og klára vinnuna svo að við getum haldið áfram umræðunni á skynsamlegum nótum.