144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[16:53]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka góða ræðu. Mig langar að spyrja þingmanninn hvort hún telji að þessu máli hefði verið hugsanlega betur fyrir komið í þeirri fagnefnd, sem upprunalega var beðið um álit frá en síðan álitið hunsað, þ.e. hv. umhverfisnefnd.

Mig langar líka að spyrja þingmanninn hvað henni finnist um að svo fjöldamörg mál, sem með réttu ættu að vera í umhverfisnefnd, hafa verið sett í atvinnuveganefnd, hvort það grafi undan trúverðugleika nefndarinnar ef hún fær ekki þau mál sem eðlilega ættu að heyra undir nefndina, hvað hv. þingmanni finnist um það. Það sem ég hef svo miklar áhyggjur af og hefur verið einkennandi á þessu kjörtímabili, ég átti nú sæti í umhverfisnefnd á síðasta kjörtímabili og það er allt önnur upplifun af því hvernig hlutunum er háttað núna en þá. Ég upplifi það að umhverfismálin séu sett út í kuldann og mér finnst það mjög skringileg þróun í ljósi þess að umhverfismál eiga ekki að heyra endilega einvörðungu undir vinstri græn eða vinstri flokka eða eitthvað slíkt, heldur eru þetta málefni sem snerta alla, hvort sem þeir aðhyllast stjórnmálaskoðanir til hægri eða vinstri eða eru í miðjunni.

Mig langaði að spyrja hvort hv. þingmanni finnist, eins og mér, sem það halli verulega á og það sé jafnvel töluvert mikil afturför þegar kemur að virðingu fyrir málefnum er lúta að umhverfismálum.