144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[16:57]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég man eftir því í upphafi síðasta kjörtímabils og mér þótti það svolítið merkilegt, ég var náttúrlega alveg ný á þingi og maður svo sem vissi ekkert hvernig hefðirnar höfðu verið áður, að þáverandi umhverfisráðherra lagði mjög ríka áherslu á það að góð samvinna yrði á milli umhverfisnefndar og atvinnuveganefndar og ráðuneytanna, að sem sagt báðir ráðherrar í þessum málaflokkum legðu sig fram við að þetta væri ekki í aðskildum kössum heldur væri gott flæði á milli. Mér hefur einhvern fundist vera veruleg afturför núna og þá segi ég það ekki út af því að ég sé að reyna að finna höggstað eða eitthvað slíkt á núverandi stjórnvöldum. En mér þótti það svolítið merkilegt í ljósi þess að á tyllidögum vill Framsóknarflokkurinn gjarnan að litið sé á hann sem fagurgrænan flokk og honum sé annt um landið okkar, en ekki var skipaður umhverfisráðherra í hartnær tvö ár frá því að ríkisstjórnin var kjörin. Auðvitað væri gagnlegt ef núverandi umhverfisráðherra mundi beita sér svolítið meira fyrir sínum málaflokki. Maður upplifir svolítið að umhverfismálin séu orðin að einhvers konar olnbogabarni þegar orðræðan er orðin sífellt meira áberandi um að okkar helstu lausnir felist í aukinni stóriðju.

Ég hef af þessu miklar áhyggjur og þess vegna finnst mér eiginlega með ólíkindum að við séum núna að ræða um þessi mál í átakastíl í stað þess að meiri hlutinn og formaður atvinnuveganefndar taki í útrétta hönd umhverfisnefndar til að finna lausn á þeim valdaójöfnuði sem hér ríkir á milli nefnda, sem er alveg ótrúlegt að eitthvert valdastríð sé (Forseti hringir.) um samvinnu á Alþingi til að gera almennileg lög.