144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[17:07]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mín túlkun á þeirri reifun sem hv. þingmaður vísaði til áðan var sú — en ég sat auðvitað ekki fundi nefndarinnar — að þar væri hugsanlega vísað til þess að endanlegu ósætti yrði vísað til dómstóla. Það finnst mér alla vega einnar messu virði að skoða hvort svo ætti að vera. En það er eiginlega ávísun á að svona mál tefjist ákaflega lengi. Það er mín skoðun, hún er kannski ekkert gaddfreðin um þetta, en ég hins vegar stakk við fæti þegar ég las það tiltekna ákvæði.

Stóri gallinn í þessu er að vegna þess hversu mikil mál eru undir sem líkleg eru til þess að varða mjög marga er flutningur á valdi frá kjörnum fulltrúum fólks til ágæts ríkisfyrirtækis. En hversu ágætt sem Landsnet er, og ég hef miklar mætur á því fyrirtæki, finnst mér það vera fullmikið valdaframsal að gefa fyrirtækinu svo að segja opinn tékka á að koma fram með eitthvað, sem það skilgreinir og það eitt, sem raunhæfa kerfisáætlun sem kannski gengur í blóra við vilja margra sveitarfélaga.

Ég tek dæmi: Flutningsfyrirtæki stendur allt í einu frammi fyrir því að fullt er af orku, kannski á Norðurlandi, og vill koma henni suður, en það er náttúrlega í andstöðu við vilja heimamanna eins og við vitum, en hvernig ætlar það að gera það? Með því að leggja línu yfir hálendið. Og það getur vel verið að fjöldi sveitarfélaga sé á móti því. Nú er hálendinu öllu deilt á sveitarfélög og jafnvel nokkur sveitarfélög kunna að spyrna við fótum. Þá segir frumvarpið einfaldlega, eins og það kemur frá skapara sínum í dag, að eftir fjögur ár verði sveitarfélögin að breyta skipulagi sínu. Það er fullkomið framsal á valdi frá kjörnum fulltrúum til (Forseti hringir.) sveitarfélaga. Þetta er það allra versta, finnst mér.