144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[17:10]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég er satt að segja undrandi á því að forseti hafi sett málið sem við ræðum hér aftur á dagskrá án þess að hv. atvinnuveganefnd hafi haldið fund og farið betur yfir það. Í umræðum á þriðjudaginn kom fram mjög hörð gagnrýni á feril málsins í þingnefndum og um einstaka þætti frumvarpsins og einnig hefur komið fram gagnrýni í umræðunum í dag. Ég vil í upphafi máls míns nefna helstu rök fyrir því að forseti hefði átt að beita sér fyrir því og ætti að beita sér fyrir því að málið færi aftur til hv. atvinnuveganefndar áður en umræðu um það er fram haldið og áður en málið fer til atkvæðagreiðslu eftir 2. umr., enda er 2. umr. meginumræða málsins á þingi. Það skiptir máli að þannig sé búið um málið að ekki sé hreinlega brotið á þingmönnum, leyfi ég mér að segja, með því að setja málið svo vanbúið í 2. umr. að í raun verður ekki hægt að taka afstöðu til þess þegar að atkvæðagreiðslu kemur.

Ég vil nefna ákvæði þingskapalaga, en þar segir í 23. gr., með leyfi forseta:

„Til fastanefnda getur þingið vísað þeim þingmálum sem lögð eru fram og þörf þykir að nefnd íhugi. Vísa má máli til nefndar á hverju stigi þess. Sé það gert áður en umræðu er lokið þá skal henni frestað.“

Lögin eru skýr hvað það varðar að þingið getur frestað málinu og vísað því aftur til nefndarinnar.

Síðar í greininni segir:

„Við umfjöllun um þingmál sem vísað hefur verið til nefndar getur hún leitað umsagnar annarra fastanefnda um málið, annaðhvort um málið í heild eða um tiltekin atriði þess. Getur nefndin þá jafnframt ákveðið frest sem önnur nefnd eða aðrar nefndir hafa til að skila umsögn sinni. Skal prenta umsagnir annarra nefnda með nefndaráliti um þingmálið.“

Þetta ákvæði þingskapalaga var ekki uppfyllt. Óskað var umsagnar hv. umhverfis- og samgöngunefndar en umsögn þeirrar nefndar um málið var ekki prentuð með áliti meiri hluta hv. atvinnuveganefndar. Ef hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir hefði ekki látið umsögn umhverfis- og samgöngunefndar fylgja með nefndaráliti minni hluta nefndarinnar hefðu hv. þingmenn sem ekki skipa viðkomandi nefndir ekki séð álitið. Það hefði verið skýrt brot á þingsköpum.

Í áliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar eru gerðar alvarlegar athugasemdir við frumvarpið og minni hluti nefndarinnar tekur undir þær með áliti sínu, þannig að segja má að í hv. umhverfis- og samgöngunefnd sé þverpólitísk samstaða um að þetta mál þurfi að vinna mun betur. Í áliti meiri hluta hv. umhverfis- og samgöngunefndar um málið segir að gera þurfi töluverðar breytingar á frumvarpinu og minni hlutinn tekur undir það.

Orðrétt segir í áliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar, með leyfi forseta:

„Frumvarpið gengur í öfuga átt við löggjafarþróun undanfarinna ára að því leyti að samráð við almenning og hagsmunaaðila hefur verið aukið við gerð viðamikilla opinberra áætlana og málum beint í sáttafarveg fremur en að um einhliða ákvarðanatöku sé að ræða, líkt og frumvarpið virðist byggja á.“

Þarna talar meiri hlutinn, sem skipaður er hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, mjög skýrt. En þessi umsögn hefur ekki fengið umfjöllun í hv. atvinnuveganefnd og það er ekki ásættanlegt. Ég mun fara nánar yfir athugasemdir umhverfis- og samgöngunefndar um málið síðar í ræðu minni og endurtek að það að atvinnuveganefndin hafi ekki farið yfir og brugðist við athugasemdum nefndarinnar, sem hún óskaði þó eftir að gæfi umsögn um málið, er eitt og sér næg ástæða til að vísa málinu aftur til nefndarinnar áður en lengra er haldið.

Á þriðjudagskvöldið kom fram hörð ádeila formanns atvinnuveganefndar á umhverfis- og samgöngunefnd og drátt á að umsagnir hefðu borist frá henni, og svipað átti sér stað í upphafi umræðunnar hér í dag. Slíkum átökum og ásökunum á milli þingnefnda hef ég ekki orðið vitni að fyrr og það hlýtur að vera áhyggjuefni hæstv. forseta þingsins. Það er sannarlega ástæða til að hæstv. forseti kalli forustumenn nefndanna til sín til að leita sátta. Mér finnst að formaður atvinnuveganefndar, hv. þm. Jón Gunnarsson, hafi sýnt umhverfis- og samgöngunefnd mikið virðingarleysi þegar hann tjáði sig um samskipti við nefndina. Aðrir geta dæmt um það með því að hlýða á ummælin á vef Alþingis, en orðin féllu undir liðnum um fundarstjórn forseta á þriðjudagskvöldið og einnig í upphafi umræðunnar í dag.

Ein sáttaleiðin gæti verið að atvinnuveganefnd tæki umsögn umhverfis- og samgöngunefndar til umfjöllunar áður en lengra er haldið með málið. Hv. þingmenn velta því nú fyrir sér hver afdrif málsins verða í atkvæðagreiðslu eftir 2. umr. Fimm hv. stjórnarþingmenn skrifa undir meirihlutaálit umhverfis- og samgöngunefndar. Getur verið að fleiri úr stjórnarmeirihlutanum séu þeim sammála, tveir til viðbótar kannski? Fleiri hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans þarf ekki til þess að fella málið í atkvæðagreiðslu.

Hæstv. ráðherra sem mælti fyrir málinu, hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hlýtur að hafa áhyggjur af þessu. Hún sagði einmitt í umfjöllun málsins við 1. umr. í andsvari við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, með leyfi forseta:

„Bara til að ítreka meginmarkmið frumvarpsins: Ekki er ætlunin að þjösna einu eða neinu í gegn, svo að ég noti orðalag hv. þingmanns, heldur er það einlægur vilji okkar sem erum talsmenn þessa frumvarps að reyna að koma þessum málum í það horf að við getum samræmt þessi sjónarmið. Það þarf að byggja hér upp í flutningskerfinu. Það þarf að styrkja raforkukerfið í landinu. Það er ómögulegt að hafa ástandið eins og það hefur verið um áratugabil að hver einasta framkvæmd skapi deilur og illindi. Við þurfum að geta komið okkur saman um leikreglurnar til þess að geta tekið sem flest sjónarmið inn í myndina.“

Virðulegur forseti. Þetta er orðrétt það sem hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra sagði við 1. umr. málsins. Sáttavilji hæstv. ráðherra um málið er augljós en sáttavilji meiri hluta hv. atvinnuveganefndar virðist hins vegar ekki vera til staðar.

Hæstv. forseti. Ég tel mig hafa fært rök fyrir því að rík ástæða sé til þess að kalla málið aftur inn í hv. atvinnuveganefnd til frekari vinnslu og fleiri hafa gert það, bæði í umræðunni á þriðjudaginn og eins fyrr í dag. Ég er undrandi á því að ekki skuli vera farið að þeim vilja stjórnarandstöðunnar að taka málið til sáttameðferðar, að fresta málinu um tíma á meðan atvinnuveganefnd fer betur yfir málið og hefur hugsanlega samráð við umhverfis- og samgöngunefnd.

Virðulegi forseti. Ég mun nýta þann tíma sem ég á eftir af þessum ræðutíma til að fara yfir gagnrýni meiri hluta hv. umhverfis- og samgöngunefndar, Landverndar, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Akureyrarbæjar, en mikill samhljómur er í umsögnum þeirra aðila um þau atriði málsins sem mesta gagnrýni hafa fengið og þau atriði sem mér finnst að vinna þurfi sérstaklega með áður en frumvarpið gengur til atkvæða. Mér finnst vera brotið á þingmönnum, virðulegur forseti, að ætlast til þess að við greiðum atkvæði um mál sem er svona vanbúið og hefur fengið svo skýra gagnrýni.

Í umsögn meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar er sagt að á málefnasviði þeirrar nefndar séu umhverfismál, skipulags- og byggingarmál, samgöngumál, byggðamál og málefni sveitarstjórnarstigsins og verkaskipting þess og ríkisins. Þá hafi nefndin talað út frá þeim hlutverkum sínum. Það er einmitt þannig að þau álitaefni sem mest hafa verið rædd eru á því sviði.

Í umsögninni segir áfram:

„Í þessum ákvæðum frumvarpsins eru stór álitamál sem snúa að sjálfstjórnarrétti og skipulagsskyldu sveitarfélaganna sem umsagnaraðilar hafa gert miklar athugasemdir við.“

Síðan segir, með leyfi forseta:

„Samkvæmt 2. gr. c frumvarpsins ber sveitarfélögum að samræma skipulagsáætlanir sínar við kerfisáætlun innan fjögurra ára frá samþykkt kerfisáætlunar, sveitarfélögum ber að tryggja að skipulagsmál hindri ekki framgang þeirra verkefna sem eru í staðfestri þriggja ára framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar og sveitarfélögum verður óheimilt að víkja frá tillögu flutningsfyrirtækisins ef það leiðir til þess að flutningsfyrirtækið nái ekki að uppfylla skyldur sínar samkvæmt kerfisáætlun. Af þessu má ráða að flutningsfyrirtækið er sett í yfirburðastöðu gagnvart sveitarfélögum og öðrum hagsmunaaðilum, t.d. jarðeigendum, og mun geta knúið sveitarfélög til að breyta sínum skipulagsáætlunum til samræmis við samþykkta kerfisáætlun innan tiltölulega skamms tíma. Ekki er gert ráð fyrir málsmeðferð sem leiði til sátta þegar ágreiningur er milli aðila og má í því sambandi benda á að ekki er um jafn fortakslausa skyldu að ræða fyrir sveitarfélög að samræma skipulagsáætlanir sínar samgönguáætlun, sem þó er samþykkt sem ályktun Alþingis, en kerfisáætlun er hins vegar ákveðin og afgreidd af stjórnsýslustofnun án beinnar aðkomu lýðræðislegra kjörinna fulltrúa. Þá er ekki heldur á neinn hátt horft til þess að flutningsfyrirtækið þurfi að taka tillit til byggðaþróunar sveitarfélaga eins og hún kemur fram í aðalskipulagi þeirra en nauðsynlegt er að raflínur standi ekki í vegi fyrir því að sveitarfélög geti þróast á eðlilegan hátt.

Meiri hlutinn geldur varhuga við framangreindum atriðum og telur að leggja þurfi meiri áherslu á samráð allra aðila og að samráðið fari fram fyrr í ferlinu þannig að ná megi sátt um lagningu raflína.“

Meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar bendir einnig á að:

„Í frumvarpi til breytinga á vegalögum er samráðsskylda Vegagerðarinnar og sveitarfélaga aukin með því að Vegagerðin skuli þegar við á leggja fram mat á umferðaröryggi mismunandi kosta við vegarlagningu nægilega tímanlega til að skipulagsnefnd geti tekið afstöðu til matsins við mótun aðalskipulagstillögu. […] Að mati nefndarinnar mætti horfa til þessarar útfærslu í frumvarpi til laga um breytingu á raforkulögum en fyrrgreind tillaga er niðurstaða samráðs Vegagerðarinnar, Samgöngustofu og Sambands íslenskra sveitarfélaga og þess gætt að um raunverulegt samráð sé að ræða þar sem einn aðili er ekki í yfirburðastöðu gagnvart öðrum.“

Virðulegur forseti. Nú ætla ég ekki að taka afstöðu sérstaklega til tillögu meiri hluta nefndarinnar en mér finnst að íhuga þurfi hvernig megi koma þessu á og hvernig megi breyta frumvarpinu þannig að sátt geti verið. Síðan eru einnig álitamál varðandi ákvörðun Orkustofnunar um samþykkt kerfisáætlunar og hvort hún sé þá kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, úrskurðarnefndar orkumála eða ráðherra.

Nefndin gagnrýnir einnig þá hugmynd að nota rammaáætlun til að byggja langtímaáætlanir á:

„Í þessu sambandi bendir nefndin á að kerfisáætlun er til 10 ára og röðun virkjunarkosta í nýtingarflokk verndar- og orkunýtingaráætlunar felur ekki sjálfkrafa í sér að ráðist skuli í virkjanir á þeim virkjunarkostum. Þeir virkjunarkostir sem raðað er í biðflokk eru enn fjarlægari. Af þessum sökum verður vart talið rökrétt að byggja á þessum atriðum í raunhæfri áætlun.“

Síðan kemur klausa þar sem nefndin segir það sem ég sagði áðan, að þetta frumvarp þurfi að taka miklum breytingum áður en hægt sé að afgreiða það. Undir nefndarálit meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar skrifar Höskuldur Þórhallsson, hv. formaður nefndarinnar, og hv. þingmenn Haraldur Einarsson, Birgir Ármannsson, Jón Þór Ólafsson og Vilhjálmur Árnason. Hv. þingmenn Birgir Ármannsson og Vilhjálmur Árnason eru á álitinu með fyrirvara en þeir skrifa samt sem áður undir álitið. Ég veit ekki af hverju hv. þingmenn skrifa undir álitið með fyrirvara, en ég geri ráð fyrir því að þeir komi í ræðu. Ég sé að hv. þm. Vilhjálmur Árnason er í salnum og ég geri ráð fyrir að hann komi og ræði um fyrirvara sinn hafi hann ekki gert það nú þegar.

Virðulegi forseti. Ég sé að tíminn líður hratt en sem betur fer get ég komið aftur í ræðu síðar í dag. Mér sýnist að ég komist ekki yfir að fara yfir allt sem ég gjarnan vildi ræða, vegna þess að það eru mjög mikilvægar umsagnir og ítarlegar sem koma til dæmis frá Landvernd. Landvernd gerir alvarlegar athugasemdir við frumvarpið og segir að breytingarnar mundu meðal annars lögfesta að virkjunarhugmyndir í nýtingar- og biðflokki rammaáætlunar megi nota sem grunnforsendur fyrir áætlun og framkvæmdum í flutningskerfi raforku, þ.e. í kerfisáætlun. Landvernd finnst þetta með öllu óraunhæft og ekki samræmast rammaáætlunarlögum þar sem skýrt er að þó svo að virkjunarhugmynd lendi í nýtingarflokki, hvað þá í biðflokki, þýði það ekki að þar verði sjálfkrafa virkjað. Enda er, virðulegur forseti, rammaáætlun ekki spá um virkjanir heldur fer það eftir eftirspurn, það fer eftir því hvort hagkvæmt sé að virkja eða af fjárhagslegum fýsileika virkjunarinnar, umhverfisáhrifum o.fl. Það er svo margt sem þarf að skoða og mjög undarlegt ef mönnum dettur það í rauninni í hug að nýta rammaáætlun, og ég tala nú ekki um virkjunarkosti í biðflokki rammaáætlunar, sem forsendur fyrir áætlun sem á að standast til 10 ára. Það er alveg út úr kortinu og meiri hluti hv. umhverfis- og samgöngunefndar er sammála Landvernd hvað þetta varðar.

Einnig segir í umsögn Landverndar:

„Í frumvarpinu eru leyfisveitingar einfaldaðar úr hófi fram og stórlega dregið úr ákvörðunar- og skipulagsvaldi sveitarfélaga. Aukið ákvörðunarvald flutningsfyrirtækisins (Landsnets) yfir eigin framkvæmdatillögum yrði ótækt. Orkustofnun yrði falið eftirlit sem stofnunin getur ekki sinnt við núverandi lagaumhverfi. Í heild sinni drægi frumvarpið úr umhverfisvernd í landinu, auk þess sem óljóst yrði með kærurétt umhverfisverndarsamtaka vegna ákvarðana um einstakar framkvæmdir í flutningskerfinu. Öll tvímæli ber að taka þar af í samræmi við fullgildingu Íslands á Árósasamningnum.“

Það eru fleiri atriði í umsögn Landverndar sem ég mundi vilja koma inn á og mun gera í seinni ræðum mínum um málið. Þá fæ ég jafnframt tækifæri til að ræða umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem einnig er mjög skýr og afdráttarlaus hvað þau mál varðar sem ég hef núna nefnt, sem bæði hv. umhverfis- og samgöngunefnd nefnir og Landvernd. Allir tala um sömu hlutina og í raun er stórundarlegt að atvinnuveganefnd skuli ekki taka málið inn núna og laga það þannig að þegar kemur að atkvæðagreiðslu sé okkur í raun gert kleift að taka afstöðu til einstakra greina.

Virðulegi forseti. Hvernig eigum við að geta greitt atkvæði eftir 2. umr. þegar þarf nauðsynlega að gera svona miklar breytingar á frumvarpinu, sem er í grunninn ágætt ef við bara mundum laga það á þennan hátt? Þá átta ég mig ekki á þessu: Hvernig ætlar til dæmis meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar, hv. stjórnarþingmenn sem þar skrifa undir, að greiða atkvæði um einstakar greinar þegar búið er að setja svo skýra gagnrýni fram og skýr skilaboð um að frumvarpið verði að taka stórkostlegum breytingum? Við þingmenn getum ekki sætt okkur við að taka þá umræðu í 3. umr. Það er 2. umr. málsins sem er meginumræðan og þess vegna er það réttmæt krafa að málið sé tekið inn í nefndina og farið yfir þau ágreiningsefni sem hér er talað um.