144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[17:33]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það þarf að finna leið til þess að fleiri komi að ákvörðunartöku. Við höfum staðfest Árósasamninginn. Það er skylda okkar að sjá til þess, þegar verið er að ræða svona mál og taka ákvörðun um mál sem þurfa að standa til margra ára og er ekki hægt að taka til baka nema að litlum hluta, að tryggt verði að fleiri geti komið að ákvörðunartöku.

Síðan eru það skipulagsmál sveitarfélaganna. Ég sem fyrrverandi sveitarstjórnarmaður get séð fyrir mér að sveitarstjórnarmenn muni rísa upp og mótmæla því ef skipulagsvaldið er tekið af sveitarfélögunum með svona skýlausum hætti. Í stefnumörkun Sambands íslenskra sveitarfélaga fyrir árin 2014–2018 er sérstaklega talað um skipulagsvaldið og hvað það skiptir miklu máli fyrir sveitarfélögin.

Nú er það ekki þannig að sveitarfélögin eigi að ráða öllu og enginn annar, en fyrr má nú vera að það sé sett í lög að Landsnet eigi að hafa algjört boðvald yfir sveitarfélögunum í landinu. Það er ekki hægt að sætta sig við það og ef hægt er að finna flöt á því, og þeim málum reyndar sem hv. þingmaður nefndi í inngangi að fyrirspurn sinni, þá held ég að við getum lent þessu máli. Ég held að það skynji það allir hér inni, bæði hv. stjórnarþingmenn, flestir, og stjórnarandstaðan, að þarna er mál sem verður að taka á. Ekki er hægt að skila frumvarpinu út með þeim hætti að skipulagsvaldið sé til dæmis tekið af sveitarfélögunum með þessum hætti.