144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[17:43]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé alveg augljóst að þessi kerfi þurfi að tala saman, það er augljóst að þau þurfa að gera það. En mig langar í þessu sambandi að koma inn á skipulagsmál sveitarfélaga, bara til að ítreka hvað frumvarpið gerir varðandi þau. Sveitarfélögum ber samkvæmt frumvarpinu að breyta skipulagsáætlunum sínum með hliðsjón af kerfisáætlun. Sveitarfélögum ber að tryggja að skipulagsmál hindri ekki framgang þeirra verkefna sem eru staðfest í þriggja ára framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar og sveitarfélagi verður óheimilt að víkja frá tillögum flutningsfyrirtækisins ef það leiðir til þess að flutningsfyrirtæki nái ekki að uppfylla skyldur sínar samkvæmt kerfisáætlun. Það er hreinlega verið að taka skipulagsvaldið af sveitarfélögum.

Það væri mun betra, eins og hv. þingmaður kom hér inn á, að landsskipulag, kerfisáætlun og aðalskipulag sveitarfélaga — að þetta verði allt í samhengi (Forseti hringir.) og ferlarnir skýrir þannig að hægt sé að ná niðurstöðu í málunum.