144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[17:47]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma hingað og skýra fyrirvara sinn, það er sannarlega þakkarvert. En þegar lesin eru saman álit meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar og minni hluta nefndarinnar þá er þetta nánast samhljóða, vegna þess að minni hlutinn er að taka undir með meiri hlutanum. Það er ekki að sjá að mikill ágreiningur sé á milli nefndarmanna hvað málið varðar í hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Sem þingmaður sem er ekki í nefndunum þá hugsaði ég þegar ég las þetta: Af hverju er þetta ekki eitt álit? Það kemur alla vega ekki fram ágreiningurinn og það er bara ágætt, það er gott og styrkir þá enn frekar þau álitamál sem dregin eru fram í umsögn nefndarinnar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi þá ekki orðið fyrir vonbrigðum með það að umsögn umhverfis- og samgöngunefndar hafi ekki verið tekin til umræðu í hv. atvinnuveganefnd og hvort honum finnist ásættanlegt að þessari umræðu sé lokið án þess að þau álitamál, sem dregin eru fram í umsögn nefndarinnar og hann skrifar undir með fyrirvara, séu rædd í atvinnuveganefnd og hvort hann muni ekki lenda í hálfgerðum vandræðum ef greiða þarf atkvæði um einstakar greinar án þess að búið sé að fara í gegnum þau atriði sem hér eru talin upp og á þeim gerðar breytingar.