144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[17:50]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað rétt að umsagnir margra, eins og hefur komið fram hér í umræðunum, eins og Landverndar og Sambands íslenskra sveitarfélaga og margra sérstakra sveitarfélaga sem sent hafa inn álit, taka undir gagnrýni umhverfis- og samgöngunefndar. Hins vegar gat hv. atvinnuveganefnd ekki vitað, og meiri hluti þeirrar nefndar, að félagar þeirra í stjórnarmeirihlutanum væru með þessa gagnrýni líka og vildu gera breytingar á frumvarpinu til að laga það og koma til móts við bæði umsagnir og álit þeirra. Það breytir nú svolítið miklu máli þegar ljóst er að fimm hv. stjórnarþingmenn eru með það skýrt í umsögninni að taka þurfi ákveðin atriði og breyta þeim. Ég hefði haldið að umræða um álitið sé grunnforsenda þess að hægt sé að halda áfram með 2. umr. um málið.