144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[17:52]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég átti leið fram hjá töflunni áðan sem sýnir viðveru þingmanna í húsinu og á lóðinni. Það olli mér verulegum vonbrigðum að sjá að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir eru öll horfin úr húsi. Þessir hv. þingmenn voru að kenna okkur hinum hérna um þingskyldur okkar fyrr í dag, að menn ættu að vera á vinnustaðnum og taka þátt í þingstörfum. Samtals taldi ég 11 stjórnarliða í húsinu, en þeir voru 32 hér, eins og frægt er orðið og sannanlegt er, fyrir ekki löngu síðan.

Að öðru leyti er það þannig að ég er næstur á mælendaskrá, virðulegi forseti, og ég hafði fyrr í umræðunni, í fyrradag, óskað eftir því að ráðherrum umhverfis- og skipulagsmála og sveitarstjórnarmála yrði gert viðvart um að þeirra nærveru og þátttöku væri óskað í umræðunni. Að sjálfsögðu er ég að vísa til þeirra miklu athugasemda sem Samband íslenskra sveitarfélaga og til dæmis Skipulagsstofnun gera við þetta mál. Ég tel það réttmæta kröfu (Forseti hringir.) að þeir ráðherrar svari til um stöðu þessara málaflokka og beini því til forseta að gera þeim hæstv. ráðherrum viðvart um að nærveru þeirra sé hér óskað (Forseti hringir.) og gjarnan áður en ég hef mál mitt.