144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[17:53]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni um mikilvægi þess að stjórnarliðar séu við þessa umræðu sem þeir leggja mikið kapp á að fari fram, þó að stjórnarliðið hafi tvenns konar ólíka afstöðu til málsins samkvæmt fyrirliggjandi þingskjölum.

Það er líka full ástæða til þess að ráðherrar sem bera ábyrgð á málinu séu viðstaddir umræðuna og ekki hvað síst hæstv. innanríkisráðherra, sem auðvitað hlýtur að taka svari sveitarfélaganna við þá gríðarlegu aðför að sjálfstæði þeirra sem gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi og stappar að mínu viti nærri stjórnarskrárbroti þar sem gengið er á sjálfstjórn sveitarfélaga samkvæmt stjórnarskrá.

Ég vil segja það að við í stjórnarandstöðunni höfum verið alveg óskaplega kurteis og lítið tilætlunarsöm um viðveru ráðherra undanfarin missiri en það er hægt að ganga svo langt að (Forseti hringir.) keyri um þverbak og mér þykir full ástæða til að stjórnarliðar, sem krefjast þess að fram fari efnisleg umræða um óþingtækt mál (Forseti hringir.) og óboðlegt mál, sitji í þingsal.