144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[17:56]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með það að forseti hafi haft samband við þá ráðherra sem talað var um að væri mikilvægt að hlustuðu á umræðuna. Ég tek undir að það er afar mikilvægt að hæstv. innanríkisráðherra sé hér, því að í þessu frumvarpi er verið að gera alvarlega aðför að skipulagsvaldi sveitarfélaganna, einu af því sem sveitarfélögin leggja hvað mesta áherslu á í stefnu sinni að standa vörð um.

Ég vil líka benda á að hér í hliðarsal sé ég einn hv. þingmann úr stjórnarmeirihlutanum en aðra hv. stjórnarþingmenn ekki í salnum. Ég vil gjarnan fá að taka þá málefnalegu umræðu sem þau óskuðu eftir þegar þau kvörtuðu undan því að stjórnarandstaðan greiddi ekki atkvæði með lengd þingfundar.