144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[17:57]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég vil taka undir með þeim sem hafa lýst furðu sinni yfir því að 11 stjórnarþingmenn virðast vera í húsi en enginn þeirra sem kenndu mannasiði í dag og lásu andaktugir upp úr þingsköpum um hverjar skyldur þingmanna væru, þ.e. að vera við atkvæðagreiðslur og þar fram eftir götunum. Þetta er náttúrlega furðulegt og í rauninni ekki hægt að kalla það annað en hreinan dónaskap við okkur hér sem erum með þetta mikilvæga mál til umræðu. Við höfum margoft sagt að við séum tilbúin til að finna sameiginlegan flöt á málinu en að vísa þurfi því aftur til nefndarinnar áður en þessari umræðu lýkur. Ágreiningurinn er nú ekki alvarlegri en það, virðulegi forseti.