144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[18:02]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þessi fundur stendur hér í boði stjórnarmeirihlutans og alveg sérstaklega í boði yfirverkstjóra stjórnarmeirihlutans, hv. þm. Jóns Gunnarssonar, en hv. þingmaður er ekki í salnum, formaður atvinnuveganefndar er ekki í salnum. Hér sést enginn ráðherra og er þó búið að ítreka óskir um að þeir komi hér til sögunnar. Það er stjórnarmeirihlutinn sem vill hafa þennan þingfund í dag og í kvöld eftir atvikum um nákvæmlega þetta mál í þeirri forkostulegu stöðu sem það er í. Forseti hefur látið þetta eftir mönnum og ryður hér dagskrá þingsins, reyndar í tvennum skilningi. Fyrst er mælendaskráin rudd eftir hádegið og hv. þm. Jón Gunnarsson, sem ekki var á mælendaskránni, settur inn á hana og settur fram fyrir alla hina. Síðan er verið að ryðja dagskránni með því að öll önnur dagskrármál eru sett út í horn, svo mikið forgangsatriði er þetta.

Þingmenn undirbjuggu sig undir það samkvæmt áætlun sem forsætisnefnd fjallaði um og samþykkti á mánudag að í dag yrðu ræddar skýrslur (Forseti hringir.) alþjóðanefnda. Er nema von að mönnum blöskri þetta, virðulegur forseti?