144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[18:06]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með þeim þingmönnum sem hafa einnig bent á mikilvægi þess að hæstv. umhverfisráðherra sé viðstaddur umræðuna. Ég vil ítreka, vegna þess að næstur á mælendaskrá er hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og á eftir honum er ég, að það er einlæg ósk mín að það verði undirstrikað við þá ráðherra sem haft er samband við núna og lýst að nærveru þeirra sé vænst í þingsal að sú ósk er ekki bundin við ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar heldur nær hún til minnar ræðu sem kemur þar í kjölfarið. Með því geta því forsjálir ráðherrar slegið tvær flugur í einu höggi og komið hér og fullnægt þörf með því að vera viðstaddir tvær ræður í einni heimsókn.

Ég vil líka minna á að það er eðlilegur þáttur þingstarfsins að sjálfsögðu að menn séu viðstaddir umræður um mál og sérstaklega ef mál við 2. umr. er óbúið til samþykktar og viðurkennt af hálfu stjórnarmeirihlutans að ekki sé hægt að samþykkja það eins og það stendur. (Forseti hringir.) Þá er lágmark að hér séu stjórnarþingmenn í salnum fyrst það eru þeir sem eru að krefjast þess (Forseti hringir.) að málið verði rætt áfram og afgreitt eins og það er.