144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[18:12]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Í ljósi þess að hæstv. innanríkisráðherra, ráðherra sveitarstjórnarmála er kominn til þingsins, hverju ég fagna, mun ég kannski nota takmarkaðan tíma minn til þess að ræða aðallega þau mál sem snúa beint að hæstv. ráðherra og inna hæstv. ráðherra eftir því hvernig hún meti stöðu málsins. Ég vil leyfa mér að rifja upp í hvaða ankannalegu stöðu við ræðum þessi mál í miklum ágreiningi milli tveggja þingnefnda. Þar á hlut að máli umhverfis- og samgöngunefnd sem fer með þá vandasömu þætti sem eru ákveðin hrygglengja í þessu máli eða ættu að vera, umhverfismálin og skipulagsmálin. Það segir sig sjálft að það er ekki góð staða að atvinnuveganefnd vaði áfram án þess að gera nokkurn skapaðan hlut með fagleg sjónarmið umhverfis- og samgöngunefndar og það sem á bak við þau eru, þar á meðal afstöðu Sambands íslenskra sveitarfélaga og Skipulagsstofnunar.

Varðandi málin þá er í umsögn frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar komist svo að orði:

„Að mati nefndarinnar eru framangreind atriði“ — sem þar hafa verið tilgreind — „þess eðlis að töluverðra breytinga er þörf á frumvarpinu. Frumvarpið gengur í öfuga átt við löggjafarþróun undanfarinna ára að því leyti að samráð við almenning og hagsmunaaðila hefur verið aukið við gerð viðamikilla opinberra áætlana og málum beint í sáttafarveg fremur en að um einhliða ákvarðanatöku sé að ræða, líkt og frumvarpið virðist byggja á.“

Varðandi þátt sveitarfélaganna í þessu þá er komið inn á afar viðkvæman hlut þar, sem við öll þekkjum mjög vel þingmenn frá umliðnum árum, sem er skipulagsvald sveitarfélaganna. Það er meira en að segja það að fara áfram með þetta mál í grenjandi ósætti við öll sveitarfélögin í landinu um eitt af kjarnaatriðum þess sem til sveitarfélaganna heyrir og löggjöfin hefur gengið frá, að þau fari með skipulagsvaldið innan þess lagaramma sem síðan er um það settur og fyrst og fremst takmarkast af einstökum lögum og áætlunum öðrum eins og á sviði samgöngumála eða landsskipulagsþættinum o.s.frv.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sent okkur ítarleg gögn og þar má nefna umsögn þeirra frá 8. desember 2014 og síðan er mér kunnugt um að þeir hafa fylgt því eftir frekar með bréfi. Þar er einfaldlega komist að þeirri niðurstöðu að það séu verulegir ágallar á málinu eins og það er afgreitt af hendi meiri hluta atvinnuveganefndar. Þar er kvartað yfir því að sambandið hafi komið þeirri ósk á framfæri við ráðuneytið að í skýringum með frumvarpinu yrði skýrt nánar, helst með raunhæfum dæmum, hvaða vandamál það væru sem ætlunin væri að leysa með því inngripi í skipulagsvaldið sem lagt er til í c-lið 9. gr. Af einhverjum ástæðum var ekki orðið við þessari ósk sambandsins, segir þar.

Síðan hefur svonefnd skipulagsmálanefnd sambandsins fjallað sérstaklega um þetta mál, svo alvarlega taka sveitarfélögin þetta. Hún er ráðgefandi fyrir stjórn og starfsmenn sambandsins og fjallaði um málið á sérstökum fundi 5. desember og þar kemur niðurstaða skipulagsmálanefndar, hinnar faglegu nefndar sveitarfélaganna um þessi mál, með leyfi forseta:

„Að áliti nefndarinnar er frumvarpið vanbúið og sérstaklega skortir mun vandaðri skýringar með því og skýrari rökstuðning fyrir þeim tillögum sem þar koma fram um skerðingu á skipulagsvaldi sveitarfélaga. Gagnrýnivert er að lítið sem ekkert er vikið að umhverfissjónarmiðum í frumvarpinu. Með tilliti til þeirra miklu annmarka sem eru á málinu telur nefndin koma til álita að Alþingi kalli eftir því að frumvarpið verði unnið betur og síðan lagt fram að nýju.“

Sveitarfélögin eru í raun og veru að segja: Þetta frumvarp er ekki tækt til afgreiðslu, það þarf að vinna það betur. Og þeirra meginkrafa er að frumvarpið hverfi af yfirborði jarðar, ríkisstjórnin taki það til sín og vinni heimavinnuna sína og komi með frumvarp sem er tilbúið til að leggja fram. Ef ekki þykir tilefni til þess að verða við þessu, segir nefndin, „verði í öllu falli vandað mjög til umfjöllunar um málið á Alþingi og því gefinn sá tími sem þarf til að hægt verði að ná sem víðtækastri sátt um málið.“

Herra forseti, hefur það beinlínis verið gert? Hefur verið vandað mjög til umfjöllunarinnar úr því að ekki er fallist á ósk nefndarinnar um að henda einfaldlega málinu? Nei, það hefur ekki verið gert. Fagnefnd þingsins er hunsuð varðandi einmitt þá þætti, t.d. skipulagsþáttinn, og það er náttúrlega meira en að segja það að standa þannig að málum.

Hvað vill hæstv. innanríkisráðherra segja okkur af þessu tilefni. Hvernig líst hæstv. innanríkisráðherra á að halda þessari umræðu áfram í óbreyttri stöðu málsins? (Gripið fram í.) Það er í meðferð, já. Það má þá aldeilis kalla það meðferð. Nei, hér reynir á löggjafann eins og akkúrat segir í áliti skipulagsmálanefndar sveitarfélaganna, með leyfi forseta:

„Í umfjöllun Alþingis um frumvarpið reynir á afstöðu löggjafans til skipulagsvalds og sjálfsstjórnarréttar sveitarfélaga, enda er gert ráð fyrir að verulega þrengi að skipulagsvaldi sveitarfélaga í grein 9 c.

Eins og rakið er að framan eru verulegir annmarkar á frumvarpinu. Sambandið leggur sérstaka áherslu á að niðurstaðan um efni greinar 9 c getur orðið fordæmisgefandi í sambærilegum málum, svo sem varðandi ákvarðanir um lagningu samgöngu- og fjarskiptamannvirkja. Skortur á skýringum við umrædda grein varðandi þau álitaefni sem snúa beint að sveitarfélögum og lögbundnu hlutverki þeirra í skipulagsmálum er sérstaklega bagalegur.“

Þetta eru ekki bara einhver smámál. Sveitarfélögin benda réttilega á að verði þetta niðurstaðan og standi Alþingi svona að málum, ja, er þá ekki verið að setja fordæmi? Að gera bara ekkert með afstöðu sveitarfélaganna í viðkvæmu máli af þessu tagi og keyra þetta áfram svona óbreytt?

Minni ég þá líka á að það er þeirra tillaga að að lágmarki verði þá útbúinn sáttafarvegur í ákvæði c-liðar 9. gr., og þau benda réttilega á að það er of seint að ætla að fara að tala saman eftir að kerfisáætlun hefur verið samþykkt. Það verður að búa út eitthvert ferli þar sem meira jafnræði er með málsaðilum á undirbúningsstiginu. Það er ekki hægt að hafa þetta svona, að flutningsfyrirtækið, hagsmunaaðilinn í málinu, undirbúi tillögu að kerfisáætlun og hann hafi í sínum höndum algerlega hvað gert er með afstöðu og sjónarmið annarra aðila í ferlinu. Orkustofnun á síðan að vísu að stimpla afurðina en þar með er málið búið og gert. Þar með er skipulagsvald sveitarfélaganna farið og þau skulu hvað sem tautar og raular, nauðug viljug breyta sínu skipulagi, sama hversu fullkomlega ósátt sem þau kynnu að vera við niðurstöðuna, innan fjögurra ára. Það er verið að leggja þetta til, herra forseti, ég held að það sé mikilvægt að hæstv. innanríkisráðherra átti sig á því (Gripið fram í.) hversu svakalega harkalega á að þjarma að sveitarfélögunum eða eftir atvikum öðrum aðilum í því sambandi, landeigendum, umhverfisverndarsamtökum. Allir aðrir en Landsnet, flutningsfyrirtækið, og eftir atvikum Orkustofnun, verða í þessari sérkennilegu stöðu. Það er ekki í samræmi við nútímaviðhorf til þessara mála. Aðgangur almennings t.d. að þessu ferli er úti í hafsauga borið saman við það sem er innbyggt í rammaáætlun, borið saman við það sem Árósasamningurinn, sem við erum búin að lögfesta, gerir ráð fyrir. Þetta er forneskjuaðferðafræði. Það á að reyna að keyra þessi mál áratugi aftur í tímann með miklu valdboði í þágu tiltekinna hagsmuna. Ég hélt að við værum satt best að segja stödd á öðrum tíma, mér liggur við að segja annarri öld í þessum málum en hér er lagt til.

Herra forseti. Það er mikilvægt að hæstv. innanríkisráðherra taki það mjög alvarlega, lesi spjaldanna á milli, hafi hæstv. ráðherra ekki gert það nú þegar, umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga og það sem skipulagsmálanefnd sveitarfélaganna hefur sent frá sér um þessi mál. Þetta var til umfjöllunar, þetta ræður þeim hörðu orðum sem umhverfis- og samgöngunefnd setur í sínar umsagnir til atvinnuveganefndar, hverjar voru ekki teknar með við afgreiðslu málsins, sem út af fyrir sig er brot á þingsköpum því að það er beinlínis uppálagt í viðkomandi grein þingskapalaga, 4. mgr. 23. gr., að prenta skuli álit annarra nefnda við afgreiðslu máls. Sú skylda hvílir á meiri hluta (Forseti hringir.) nefndarinnar, samanber það að ekki má taka þingmál út úr nefnd fyrr en (Forseti hringir.) nefndarálit a.m.k. meiri hlutans liggur fyrir.