144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[18:22]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst taka undir með hv. þingmanni og þakka það að hæstv. innanríkisráðherra sé komin hér. Ég er næstur á mælendaskrá og hafði einnig hugsað mér að beina orðum til hennar út af þessu máli.

Sú sérkennilega staða varðandi sveitarfélögin er uppi í þessu máli að í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að gengið verði á svig við skipulagsvald sveitarfélaga. Við erum að ræða málið í 2. umr., þinglegri meðferð, eins og hæstv. innanríkisráðherra kallaði hér fram í áðan að stæði yfir. Já, við erum að ræða það í 2. umr., þar sem mál eiga að vera komin til efnislegrar, tækrar niðurstöðu og gert ráð fyrir að í 3. umr. fari fram lokahreinsun. En það liggur fyrir í málinu að það er ágreiningur milli stjórnarmeirihlutans í umhverfisnefnd og stjórnarmeirihlutans í atvinnuveganefnd um efnisatriði málsins.

Það segir í umsögn meiri hluta umhverfisnefndar að meiri hlutinn gjaldi varhuga við þeim atriðum sem þar er lýst um yfirburðastöðu fyrirtækisins, flutningsfyrirtækisins, gagnvart sveitarfélögunum. Við þær aðstæður er auðvitað ómögulegt að fjalla um málið efnislega. Hvernig verður málið í endanlegri mynd? Hvort mun stjórnarmeirihlutinn í umhverfisnefnd eða stjórnarmeirihlutinn í atvinnuveganefnd ráða ferðinni?

Ég vil spyrja hv. þingmann, sem er þingreyndari en nokkrir aðrir hér: (Gripið fram í.) Man hann dæmi þess að mál hafi verið sett fram af hálfu stjórnarmeirihluta með þessum hætti í 2. umr. og því verið haldið fram að þau séu tæk til þinglegrar meðferðar í því formi að stjórnarmeirihlutinn í tveimur nefndum er ósammála um (Forseti hringir.) efnislegt inntak þeirra?